Eiga heimilin að leggja bílnum?

Kallað er eftir breytingum á neyslumynstrinu.
Kallað er eftir breytingum á neyslumynstrinu. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra loftslagsmála, segir óraunhæft að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum án frekari orkuöflunar. En ættu heimilin að keyra minna, fara í færri flugferðir og gera aðrar grundvallarbreytingar á neyslu sinni í þágu loftslagsmála?

Loftslagsmálin eru sem fyrr til umræðu. Fjölmenn sendinefnd fór frá Íslandi á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi en mörg aðildarríkja SÞ glíma nú við orkukreppu. Þar með talið í Evrópu þar sem kuldar eru taldir munu kosta mannslíf í haust.

Hafa skipt um skoðun

Rætt er við Guðlaug Þór um orkumál í Morgunblaðinu í dag. Þar boðar hann uppbyggingu virkjana enda hafi kyrrstaðan í þeim málaflokki verið rofin.

Meðal annars boðar hann uppbyggingu vindorkuvera, sem séu eðlilega umdeild. Hins vegar sé skrítið ef enginn staður á Íslandi þyki koma til greina undir vindorkuver.

Þeir sem töluðu mest með vindorku fyrir ári séu mest á móti henni núna.

Eðlilegt að fólk greini á

Þú nefnir að fólk hafi skipt um skoðun á vindorkunni á skömmum tíma. Er verið að nota hana í pólitískum tilgangi? 

„Ég er ekki að segja það. Ég þekki engan íslending sem er ekki með skoðun á þessu. Maður heyrir það á förnum vegi – til dæmis í fermingarboðum – og það er eðlilegt. Þetta er landið okkar og við viljum öll hafa græna orku en á sama tíma viljum við gæta jafnvægis. Sumum finnst hrikalegt lýti af vindorkuverum og öðrum af vatnsaflsvirkjunum og aðrir hafa efasemdir um jarðvarmavirkjanir. Þetta eru allt sjónarmið sem eiga rétt á sér og þarf að ræða en að lokum er staðan sú að okkur skortir græna orku. Þá fyrst og fremst út af loftslagsmarkmiðum en svo má nefna þjóðaröryggismál. Við Íslendingar stöndum nú mun betur að vígi en löndin sem við berum okkur saman við. Það er tilkomið vegna þess að við nýttum græna orku.“ 

Óraunhæft að nema staðar

Hversu raunhæft er að ná loftslagsmarkmiðum en jafnframt hagvexti á næstu árum, án frekari orkuöflunar?

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Morgunblaðið/Sigurður Bogi


 

„Loftslagsmarkmiðin munu ekki nást án orkuöflunar. Það er útilokað. Þá ekki nema við færum að flytja inn græna orku sem væri óheyrilega dýrt.“  

Hvað með það sjónarmið að hagvöxtur sem slíkur sé ekki mikilvægur og að ná megi þessum loftslagsmarkmiðum með öðrum leiðum, þar með talið með minni neyslu?  

„Við erum til dæmis að leggja áherslu á hringrásarhagkerfið sem gerir það að verkum að við nýtum hlutina betur innanlands, umbúðir til dæmis, en við getum gert betur í að draga úr notkun þeirra.“  

Þurfa skip eða flugvél

En að ganga lengra? Þá er ég að hugsa um það sjónarmið að nóg sé til og að málið snúist um að breyta neyslumynstrinu? 

„Við erum í miðju Norður-Atlantshafi og til að komast hingað þarf annaðhvort að fara með skipi eða flugvél og við byggjum afkomu okkar á því að fólk komi hingað, aðallega með flugvélum, og á því að flytja út vörur með skipum og flugvélum. Svo er hugverkageirinn stoð sem er þvert á þetta allt saman og er auðvitað nokkuð sem við munum reiða okkur meira á í framtíðinni. Ef menn ætla að breyta þessu líkani í grundvallaratriðum að þá hef ég ekki séð neinar útfærslur á því og get því ekki tjáð mig um það,“ segir Guðlaugur Þór að lokum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK