Tekist á um armslengd ráðherra og Bankasýslunnar

Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. mbl.is/Hákon

Hiti færðist í menn á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun er rætt var um hina svokölluðu armslengd á milli Bankasýslu ríkisins og fjármála- og efnahagsráðherra. 

Gest­ir fund­ar­ins voru Jón Gunn­ar Jóns­son, for­stjóri Banka­sýslu rík­is­ins, Lár­us L. Blön­dal, stjórn­ar­formaður Banka­sýslu rík­is­ins, Óttar Páls­son, lögmaður hjá Logos, og Mar­en Al­berts­dótt­ir, lögmaður hjá Logos.

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins.
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Hákon

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði forsvarsmenn Bankasýslunnar nokkrum sinnum hver armslengd fjármála- og efnahagsráðherra var við sölumeðferðina á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

„Hann í raun og veru felur okkur framkvæmd sölunnar og síðan á tímabilinu, á meðan salan stendur yfir, þá óskum við eftir því að fulltrúar ráðuneytisins sætu ákveðna fundi þennan dag, en ráðherrann var auðvitað ekki staddur þar, en síðan er það hans hlutverk á endanum eftir að við höfum framkvæmt söluna að taka þessa ávörðun um lokasöluverð og úthlutun, og það er nákvæmlega það sem gerðist,“ svaraði Lárus.

Hann sagði að ráðherra hefði tekið ákvörðun um lokasölugengið og magnið.

„Þannig að hann samþykkt 117 [krónu sölugengið]? Það er enginn armslengd í því,“ sagði Eyjólfur þá.

Lárus sagði að Bankasýslan hefði tekið ávörðun um leiðbeinandi söluverð.

Jón Gunn­ar Jóns­son, for­stjóri Banka­sýslu rík­is­ins, Lár­us L. Blön­dal, stjórn­ar­for­maður …
Jón Gunn­ar Jóns­son, for­stjóri Banka­sýslu rík­is­ins, Lár­us L. Blön­dal, stjórn­ar­for­maður Banka­sýsl­un­ar og Óttar Pálsson, lögmaður hjá Logos. mbl.is/Hákon

Ekkert klúður

Eyjólfur sagði að ráðherra bæri ábyrgð á „klúðrinu sem Bankasýslan er að framkvæma við söluna, eins og kemur fram í skýrslunni“.

Jón andmælti því að það hefði verið klúður við söluna. Hann sagði það vera mjög skýrt í lögum hver ábyrgðarskilin séu á milli ráðherra og Bankasýslu ríkisins.

„Af því að þú ert að tala um armslengdina, þá gengur hún í grundvallarhlutverki út á það að ráðherra sé ekki að hafa afskipti af því hvernig Bankasýslan beitir atkvæði sínu á hlutahafafundum og svo framvegis,“ sagði Jón.

Eyjólfur spurði þá af hverju Bankasýslan hringdi í ráðherra til að ákveða söluverðið.

Jón svaraði og sagði að ráðherra bæri ábyrgð á sölu ríkiseigna.

„Það er sjálfsagt að ráðherra sé upplýstur á öllum tímapunktum um framvindu söluferlisins. Hann tekur ákvörðun samkvæmt lögum.“

Jón sagði að Bankasýslan hefði ekki tekið neitt vald af ráðherra.

„Samkvæmt eðli málsins er Bankasýslan framkvæmdaaðili, og við berum ábyrgð á framkvæmd útboðsins,“ sagði Jón og benti á að í bréfi til ráðherra hefði Bankasýslan óskað eftir heimild hans til að ganga frá samningum og úthluta í samræmi við viðmið.

„Þannig að það var í einu og öllu farið að lögum.“

Eini valkosturinn

Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri grænna, spurði hvort Bankasýslan myndi mæla aftur með þessari söluaðferð eftir þá gagnrýni sem hefur komið fram.

„Í aðdraganda þessa útboðs þá var fjallað um ýmsar söluaðferðir og það var gerð grein fyrir þeim og þessari söluaðferð sem síðan var valin og hún var ekki gallalaus. Við gerðum grein fyrir því hvaða annmarkar væru þar. Ég get sagt það að þetta er langvinsælasta og algengasta söluaðferðin í framhaldssölu á hlutabréfum í allri Evrópu og er mjög mikið notuð líka af ríkissjóðum,“ sagði Lárus.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, og Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri …
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, og Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Hákon

„Í sjálfu sér snýst þetta ekki um að þessi aðferð sé ótæk eða eitthvað með þeim hætti. Hún hefur ákveðna kosti, mikla kosti. Hún til dæmis gerði það að verkum að við gátum boðið þetta út á þessum tímapunkti,“ sagði Lárus og bætti við að hann teldi að þetta hefði verið eini valkosturinn á þessum tímapunkti.

„En hins vegar ef menn ætla að taka ákvörðun um nýtt útboð. Þá munu menn auðvitað horfa til þess hvað er hægt að læra af þessu og hvaða gallar voru við þetta útboð og voru gallarnir það stórir að við viljum ekki fara þessa leið,“ sagði hann.

Jón tók undir orð Lárusar og benti á að kostir fyrirkomulagsins væru gríðarlega miklir, „sérstaklega í ljósi þess að við teljum með þessu að við náum hæsta verði og lágmörkum áhættuna“.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK