Bankasýslan svarar aftur fyrir excel-málið

Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með fulltrúum Bankasýslu ríkisins.
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með fulltrúum Bankasýslu ríkisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bankasýsla ríkisins segist hafa haft yfirsýn yfir stöðu tilboðsbókar þegar ákvörðun var tekin um leiðbeinandi verð og rökstutt mat var sent á ráðherra að kvöldi 22. mars sl., þegar ríkið seldi 22,5% hlut í Íslandsbanka.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bankasýslunni sem send var fjölmiðlum fyrr í kvöld og orðum ríkisendurskoðanda, sem kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun, þannig mótmælt. Á fundinum var nokkuð fjallað um excel-málið svonefna, en sem kunnugt er er ítarlega fjallað um það í skýrslu ríkisendurskoðunar um söluna að Bankasýslan hafi kunnað að byggja mat sitt á röngum upplýsingum þar sem tölur hafi verið vitlaust slegnar inn í Excel skjal á meðan tilboðum var safnað. Það hefur þó verið hrakið.

Í tilkynningu frá Bankasýslunni í kvöld kemur fram að stofnunin hafi ítrekað bent Ríkisendurskoðun á að starfsmenn stofnunarinnar, fyrir milligöngu umsjónaraðila, hafi náið fylgst með þróun tilboðsbókar allt frá upphafi útboðsins til enda. Stöðu bókarinnar hafi reglulega verið varpað á skjá í höfuðstöðvum Íslandsbanka fram á kvöld þess dags er útboðið fór fram.

„Á þeim fimm klukkustundum sem útboðið stóð yfir var tilboða aflað fyrir rúmlega 150 milljarða króna. Það samsvarar um 30 milljörðum króna á klukkustund eða 500 milljónum króna á hverri mínútu að jafnaði. Ákvarðanir um leiðbeinandi verð og rökstutt mat til ráðherra um lokaverð og magn, sem honum var sent kl. 21:40 að kvöldi 22. mars 2022, byggðu á upplýsingum sem þá lágu fyrir um eftirspurn fjárfesta,“ segir í tilkynningunni og það tekið fram að upplýsingarnar hafi tekið breytingum.

„Heildarmyndin var hins vegar skýr og yfirsýn umsjónaraðila (Citigroup Global Markets Europe AG, J.P. Morgan SE og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka), Bankasýslu ríkisins og fjármálaráðgjafa stofnunarinnar (STJ Advisors Group Limited) góð. Endanleg staða tilboðsbókar og flokkun fjárfesta var síðan send ráðherra kl. 23:18. Á þeim grunni var ákvörðun ráðherra tekin og staðfest bréflega við Bankasýslu ríkisins kl. 23:27. Samkvæmt þessu er engum vafa undirorpið að ákvarðanir um verð í söluferlinu, sem allar voru teknar að fengnum tillögum umsjónaraðila útboðsins og með hliðsjón af ráðgjöf fjármálaráðgjafa Bankasýslu ríkisins, byggðust á fullnægjandi upplýsingum,“ segir ennfremur.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK