Sammála niðurstöðu LOGOS

Róbert R. Spanó.
Róbert R. Spanó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Róbert R. Spanó, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og gestaprófessor við lagadeild Oxford háskóla í Bretlandi hefur sent lífeyrissjóðunum álitsgerð þar sem hann kveðst sammála niðurstöðum lögmannsþjónustunnar LOGOS í málefnum ÍL-sjóðs.

Róbert hafði fengið bón þess efnis frá íslenskum lífeyrissjóðum að fara yfir forsendur minnisblaðs Landslagalögfræðistöðu fyrir fjármála- og efnahagsráðherra annars vegar og álitsgerðar LOGOS lögmannsþjónustu fyrir lífeyrissjóðina hins vegar.

Andstætt stjórnarskránni

Fram kemur í tilkynningu frá lífeyrissjóðunum að „niðurstöður Róberts voru afgerandi og staðfesta álitsgerð LOGOS.“ Hann telur slíkar aðgerðir af hálfu löggjafans andstæðar stjórnarskránni og einnig mannréttindasáttmála Evrópu.

Þar að auki segir hann að slit og gjaldþrotaskipti ÍL-sjóðs á þeim grundvelli sem fram kemur í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra til Alþingis frá októbermánuði sl. feli í sér eignarnám sem ekki sé hægt að framkvæma án fullra bóta til lífeyrissjóðanna, sem yrði þá að taka mið af skuldbindingum ÍL-sjóðs um greiðslu vaxta til framtíðar.

Róbert segir ekki nægileg gögn í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra til Alþingis styðja réttindi löggjafans samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar eða 1.gr. 1. viðauka við MSE til að setja lög um slit og gjaldþrotameðferð ÍL-sjóðs án þess að slík löggjöf leiddi til bótaskyldu íslenska ríkisins á hendur skuldabréfaeigendum.

Róbert tekur þó fram að niðurstöður hans í álitinu byggi á þeirri forsendu sem álitsbeiðendur, lífeyrissjóðirnir sem um ræðir, hafi lagt til grundvallar um efni og inntak mögulegar löggjafar um slit á ÍL-sjóði sem lýst er í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra til Alþingis.

„Í því ljósi, og með vísan til þess að ekkert liggur enn fyrir um frekari framgang málsins á vettvangi Alþingis, verður í þessu áliti ekki fullyrt frekar um þau álitaefni sem hér á reynir á grundvelli stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu komi til þess að sett verði löggjöf sem hefur að geyma annað fyrirkomulag á uppgjöri ÍL-sjóðs en lýst er í skýrslu ráðherra,“ segir í lokaorðum álitsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK