Spáir 9,6% verðbólgu í desember

Hagfræðideild Landsbankans spáir 9,6% verðbólgu í desember. 

Í nýjustu Hagsjá bankans, segir að deildin spái því að vísitala neysluverðs hækki um 0,68% milli mánaða í desember. Gangi spáin eftir hækki ársverðbólgan tímabundið úr 9,3% í 9,6%. „Við eigum samt von á að ársverðbólgan hjaðni aftur strax í janúar á næsta ári og verði komin niður í 7,9% í mars.“

Fram kemur, að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 0,29% milli mánaða í nóvember og hjaðnaði verðbólga, úr 9,4% í 9,3%.

„Þetta var svipað og við áttum von á, en við höfðum spáð 0,27% hækkun. Það var þó tvennt sem kom á óvart: Matur og drykkjarvörur hækkuðu meira en við áttum von á og húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu óvænt,“ segir í Hagsjánni. 

„Við spáum því að vísitalan hækki um 0,55% milli mánaða. Gangi það eftir hækkar ársverðbólgan úr 9,3% í 9,6%. Að þessu sinni eru það þrír undirliðir sem hafa mest áhrif. Við eigum von á að reiknuð húsaleiga hækki um 0,6% milli mánaða (+0,12% áhrif á vísitölu), kaup á nýjum bílum hækki um 1,3% (0,08% áhrif á vísitölu) og flugfargjöld til útlanda hækki um 19,5% (0,34% áhrif á vísitölu). Þessir þrír undirliðir skýra 0,57 prósentustig af 0,68% hækkun VNV, eða 78%. Spá okkar um 9,6% ársverðbólgu í desember er 0,1 prósentustigi hærri en spáin sem við birtum í nóvember. Skýrist munurinn af hærri spá um flugfargjöld til útlanda í desember. Á móti kemur að dælueldsneyti lækkar milli mánaða, en í nóvember gerðum við ráð fyrir smávægilegri hækkun. Skoðun okkar á öðrum undirliðum vísitölunnar er nokkurn veginn óbreytt frá því í nóvember,“ segir einnig. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK