Vill ekki svara efnislegum spurningum um starfsemi Ljósleiðarans

Frekari skuldsetning Ljósleiðarans mun hafa áhrif á efnahagsreikning Orkuveitu Reykjavíkur.
Frekari skuldsetning Ljósleiðarans mun hafa áhrif á efnahagsreikning Orkuveitu Reykjavíkur. MBL/Ari Páll Karlsson

Orkuveita Reykjavíkur (OR) þarf að breyta skilmálum á lánum sínum til að rýmka til fyrir frekari skuldsetningu samstæðunnar. Sú aukna skuldsetning kemur til vegna kaupa Ljósleiðarans, dótturfélags OR, á grunnneti Sýnar fyrir um þrjá milljarða króna. Eins og greint var frá í Viðskipta- Mogganum í síðustu viku stendur til að ganga frá þeim kaupum í vikunni en ekki hafa fengist svör við því hvernig Ljósleiðarinn hyggst fjármagna kaupin. OR er ekki heimilt að auka hlutafé félagsins eða veita því lán þar sem það stangast á við reglur um ríkisaðstoð í EES-samningnum. Skuldir Ljósleiðarans eru nú þegar um 14 milljarðar króna.

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og stjórnarformaður OR, vildi ekki ræða málið í síma þegar Morgunblaðið leitaði upplýsinga um málið og bað um að fá spurningar sendar í tölvupósti.

Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR
Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR Ljósmynd/Aðsend

Þar var Brynhildur meðal annars spurð að því hvað hefði falist í skilmálabreytingunni og hver tilgangurinn hefði verið með samþykktinni. Þá var hún spurð að því hvort hún teldi að OR þyrfti að aðhafast frekar til að rýmka fyrir aukinni skuldsetningu Ljósleiðarans og hvort stjórn OR hefði gert einhvern fyrirvara á stefnu Ljósleiðarans um aukna starfsemi á landsbyggðinni og það að ráðast í samkeppni við einkaaðila, meðal annars með aukinni skuldsetningu. Brynhildur var jafnframt spurð að því hvort hún teldi starfsemi Ljósleiðarans á öðrum stöðum á landinu vera í samræmi við eigendastefnu félagsins, þar sem fram kemur að meginstarfssvæði OR sé Suðvesturland og að tækifæri annars staðar séu „skoðuð út frá hlutverki fyrirtækisins, arðsemi og áhættu og skulu staðfest af eigendum áður en stofnað er til skuldbindinga vegna þeirra,“ eins og það er orðað.

Brynhildur svaraði spurningunum ekki efnislega en vísaði þess í stað á fundargerðir stjórnar OR, sem birtar eru á vef fyrirtækisins, og benti á að þau gögn sem ekki væru bundin trúnaði væru birt þar. Þrátt fyrir ítrekun var spurningunum ekki svarað.

Nánar er fjallað um málið í prentútgáfu Morgunblaðsins laugardaginn 10. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK