Hafa lokið við kaupsamning á stofnneti Sýnar

Ljósleiðarinn er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur.
Ljósleiðarinn er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Ari Páll

Ljósleiðarinn ehf. og Sýn hf. luku í dag við gerð samnings um kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar og þjónustusamnings milli fyrirtækjanna.

Tilkynnt var um einkaviðræður félaganna þann 5. september.

Í tilkynningu sem send var út nú síðdegis segir að samningarnir, ásamt viðeigandi tilkynningu, verði sendir Samkeppniseftirlitinu til rýni en fyrirvari er í samningunum um samþykki eftirlitsins.

Yngvi og Erling handsöluðu samninginn í dag.
Yngvi og Erling handsöluðu samninginn í dag. Ljósmynd/Aðsend

Áður hafði Ljósleiðarinn aflétt fyrirvörum vegna fjármögnunar og áreiðanleikakönnunar.

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, og Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, skrifuðu undir samningana í dag.

Þeir fela meðal annars í sér kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar fyrir um þrjá milljarða króna og þjónustukaup Sýnar af Ljósleiðaranum til tólf ára.

Haft er eftir Erling Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Ljósleiðarans, að þar sé samningum fagnað einkum af þremur ástæðum.

Ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum

„Við kaupum stofnnet af Sýn sem hjálpar okkur að auka fjarskiptaöryggi í landinu til mikilla muna með nýjum öflugri landshring. Til viðbótar styrkjum við heilbrigða samkeppni á fjarskiptamarkaði með því að bjóða fólki og fyrirtækjum upp á val um gagnaflutninga um ljósleiðara sem víðast um landið,“ er haft eftir Erling.

„Loks tryggjum við áframhaldandi gott samstarf við Sýn sem hefur verið einn mikilvægasti viðskiptavinur Ljósleiðarans frá upphafi.“

Þess ber að geta að Erling hefur ekki svarað ítrekuðum símhringingum og tölvupóstum Morgunblaðsins þar sem spurt er um fyrirhugaða fjármögnun félagsins.

Í tilkynningu segir enn fremur að þjónustusamningurinn bætist við fyrri samninga við Nova og Farice „og eykur hagkvæmni fjárfestinganna sem Ljósleiðarinn stendur í“.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK