Verð á jarðgasi er komið á sama stað og fyrir innrás Rússa í Úkraínu eftir lækkanir í vikunni.
Verð á framvirkum jarðgassamningum féll lægst niður í 77 evrur en er nú í kringum 80.
Verðið náði hámarki í ágúst þegar það var um 345 evrur. Síðan þá hefur verðið lækkað um rúmlega 75%. CNBC greinir frá.
Verð á gasi hækkaði töluvert eftir að Rússar ákváðu að takmarka aðgengi að rússnesku gasi í kjölfar viðskiptabanns ESB. Álfan stólaði að stórum hluta á rússneskt gas til húskyndingar.
Veturinn í álfunni hefur verið óvenjulega hlýr, sem hefur leitt til þess að spurn eftir gasi hefur verið minni en ráðgert var.
Lönd í álfunni hafa nýtt veðrið vel og hafa einnig unnið að því að endurnýja gasbirgðir sínar.