Forstjóra VÍS sagt upp

Helgi Bjarnason, fráfarandi forstjóri VÍS.
Helgi Bjarnason, fráfarandi forstjóri VÍS.

Helgi Bjarnason, forstjóri Vátryggingafélags Íslands (VÍS), hefur látið af störfum hjá félaginu. Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, mun taka tímabundið við starfi forstjóra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS til Kauphallarinnar nú undir kvöld. Þar kemur einnig fram að stjórn VÍS muni ráða nýjan forstjóra á næstunni og tilkynna um það sérstaklega. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins lét Helgi ekki af störfum að eigin frumkvæði.

Guðný Helga Herbertsdóttir mun tímabundið taka við stöðu forstjóra VÍS.
Guðný Helga Herbertsdóttir mun tímabundið taka við stöðu forstjóra VÍS.

Kaflaskil í rekstri félagsins

Í tilkynningunni kemur fram að stjórn VÍS hafi markað stefnu sem feli í sér „ákveðin kaflaskil í rekstri félagsins“ eins og það er orðað.

Þannig sé það markmið stjórnar að gera VÍS að enn vænlegri fjárfestingakosti á markaði með skýrri sýn á vöxt, þróun og fjármagnsskipan. Liður í því sé að gera félagið söludrifnara, efla tengsl við viðskiptavini og vera í fararbroddi við að innleiða nýjungar í tryggingastarfsemi. Samhliða stefnir VÍS á að verða virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi á Íslandi með áherslu á arðsaman vöxt, eignastýringu og ýmis önnur tækifæri sem hafa opnast á fjármálamarkaði.

„Á þessum kaflaskilum lætur Helgi Bjarnason af störfum sem forstjóri, en hann hefur leitt starfsemi VÍS frá 1. júlí 2017,“ segir í tilkynningunni og því bætt við það stjórn VÍS muni ráða nýjan forstjóra til félagsins á næstunni og tilkynna um það sérstaklega.

„Það er mat stjórnar VÍS að nú sé rétti tíminn til að gera breytingar á hlutverki forstjóra og hefja nýjan kafla á þeim góða grunni sem lagður hefur verið. VÍS þarf að vera í sífelldu breytingaferli til þess að geta verið skrefinu á undan í þróun trygginga- og fjármálamarkaða á Íslandi. Forstjóraskipti nú eru hluti af því ferli. Markmiðið er að VÍS verði í fararbroddi íslenskra tryggingafélaga, veiti framúrskarandi þjónustu og sé í nánum tengslum við viðskiptavini sína,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK