Óljóst hvort bankinn viðurkenni brot

Íslandsbanki sendi tilkynningu til Kauphallarinnar í gær.
Íslandsbanki sendi tilkynningu til Kauphallarinnar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) segir tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar á mánudaginn um frummat FME hafa mátt vera fyllri.

Ekki liggi fyrir hvort að ákvörðun hafi verið tekin um það af bankanum að óska eftir að ljúka málinu með sátt, sem myndi gefa til kynna viðurkenningu á broti af hálfu Íslandsbanka, eða hvort bankinn muni mótmæla því að einhverju leyti. Fyrst að bankinn taldi ástæðu til að senda út tilkynningu um stöðu málsins þá hefði ekki verið „óeðlilegt“ að setja fram heillegri upplýsingar í tilkynningunni.

„Sáttaferli“ hafið

Í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar á mánudaginn kemur fram að FME telji að Íslandsbanki kunni að hafa brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga og reglna sem um bankann og starfsemi hans gilda, við útboð á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í mars.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að sáttaferli sé hafið og að bankinn muni á næstu vikum setja fram skýringar sínar og sjónarmið við frummati FME. Stjórnendur bankans taki frummatinu alvarlega og að breytingar hafi verið gerðar á innri reglum og ferlum.

Þess ber að geta að tilkynning Íslandsbanka birtist í kjölfar fjölda fyrirspurna mbl.is um frummat FME fyrr sama dag. Birna Einarsdóttir bankastjóri hefur ekki gefið kost á viðtali vegna málsins.

Gerir ekki sátt nema viðurkenna brot

Orðið sáttaferli sem birtist í tilkynningunni hefur vakið nokkra athygli og velta margir vöngum yfir því hvort að það merki að bankinn ætli að ljúka málinu með svokallaðri sátt.

„Þegar að bankinn segir að sáttaferli sé hafið þá finnst mér það gefa til kynna að hann sé reiðubúinn til að gangast undir sátt. En spurningin er hvort að það er rétt lesið í það eða hvort að bankinn eigi eftir að setja fram einhver sjónarmið og hafi enn fyrirvara á því hvort hann viðurkenni brot að einhverju eða öllu leyti,“ segir Jónas Fr. Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi forstjóri FME, í samtali við mbl.is.

„Það er allavega alveg ljóst að þú gerir ekki sátt án þess að þú viðurkennir brot.“ 

Að sögn Jónasar er efni málsins ekki alveg ljóst þar sem í tilkynninguna vantar upplýsingar til að gefa fyllri mynd og ekki hefði verið óeðlilegt að birta, fyrst að tilkynning var send út. Til að mynda hvaða brot bankinn er sakaður um, hvort að bankinn gangist við þeim brotunum að öllu leyti eða hluta og hvað hafi nú þegar verið gert til úrbóta og hvað eigi eftir að gera. 

Líklega ekki „meiri háttar“ brot

Í tilkynningu Íslandsbanka í fyrradag segir einnig að í frummatinu hafi FME vakið athygli á heimildum FME til að leggja á stjórnvaldssektir eða ljúka málinu með sátt. 

Jónas bendir á að í 1. grein reglna um heimild FME til að ljúka máli með sátt segir að heimild til sáttar nái ekki til meiri háttar brota sem refsiviðurlög liggja við. 

Að sögn Jónasar bendir þetta til þess að brotin sem minnst er á í frummatinu teljist ekki meiri háttar. Samkvæmt reglunum sem vísað er í hér að ofan telst brot meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK