Mikill áhugi á nýju verðbréfa-appi Acro

Hannes Árdal, framkvæmdastjóri Acro verðbréfa.
Hannes Árdal, framkvæmdastjóri Acro verðbréfa.

Fyrirtækið Acro verðbréf gaf út samnefnt smáforrit í dag, 19. janúar, og hafa viðtökurnar heldur betur verið góðar en smáforritið trónir á toppi íslensku App store um þessar mundir.

Viðskiptavinir Acro geta í gegnum smáforritið nálgast rauntímagögn um íslenska hlutabréfamarkaðinn og keypt og selt hlutabréf.

„Þetta er í fyrsta skipti sem viðskiptavinir fjármálafyrirtækja hér á landi geta nálgast rauntímagögn í gegnum svona þjónustu,“ segir Hannes Árdal, framkvæmdastjóri Acro verðbréfa, í samtali við mbl.is.

Mikilvægt að vanda til verka

Hannes segir viðtökurnar hafa farið fram úr hans björtustu vonum en forritið er búið að vera í notendaprófunum síðustu mánuði.

„Þetta er ekki verkefni sem þú hristir fram úr erminni.“

Hannes segir þróun forritsins hafi tekið sinn tíma, mikilvægt sé að vanda til verka og í mörg horn sé að líta við uppsetningu á svona lausn fyrir viðskiptavini.

Acro verðbréf gaf út samnefnt smáforrit í dag.
Acro verðbréf gaf út samnefnt smáforrit í dag.

Reyna að stilla þóknunum í hóf

„Við erum fjármálafyrirtæki og erum sem slíkt að hafa milligöngu um viðskipti einstaklinga sem eru að vinna með sinn sparnað. Við viljum vanda okkur og gera hlutina eins og best verður á kosið.“

Spurður hvort Acro byggi á svokölluðu Robinhood-módeli svarar Hannes því neitandi.

Viðskiptavinir framkvæma viðskipti á besta mögulega markaðsverð á hverjum tíma í kerfum Kauphallar Íslands og greiði viðskiptaþóknun.

Spurður um viðskiptaþóknanir segir Hannes að félagið reyni að stilla viðskiptaþóknunum í hóf og það verði stefnan hjá félaginu að vera samkeppnishæf á þessum markaði á komandi árum.

Vinna sig í gegnum skaflinn

Hannes segir að það taki um fimm mínútur fyrir notendur að skrá sig í viðskipti við Acro en fyrirtækið gefi sér sólarhring til þess að samþykkja umsókn notenda.

„Ég get sagt það að þessar viðtökur eru þess eðlis að einhverjir notendur munu því miður þurfa að bíða lengur en sólarhring. Áhuginn er mjög mikill og við erum að vinna okkur í gegnum skaflinn.

Við vonum að allir þeir sem sóttu Acro-appið í dag sýni því skilning að þetta gæti tekið ögn meiri tíma en ráð var fyrir gert. Við erum virkilega ánægð með þessar viðtökur og hlökkum mikið til að taka á móti nýjum viðskiptavinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK