Óhætt er að segja að raðfrumkvöðullinn Friðrik R. Jónsson sé með mörg járn í eldinum þessa dagana. Friðrik, sem stofnaði Carbon Recycling International, CRI, árið 2006 með það að markmiði að þróa tækni til að umbreyta vetni og koltvísýringi í endurnýjanlegt eldsneyti og hráefni til efnaframleiðslu, metanól, hefur nú hafið vetnisframleiðslu. Auk þess þróar hann umhverfisvænar umbúðir í samstarfi við drykkjarvörurisa og undirbýr lausnir til að græða upp eyðimerkur.
Friðrik mun m.a. fjalla um þessi verkefni sín á janúarráðstefnu Festu á Hilton Nordica í næstu viku.
„Ég á í vetnisfyrirtækinu Maat Energy með félaga mínum sem er prófessor við MIT-háskólann í Cambridge í Bandaríkjunum. Við stefnum að því að verða ódýrasti vetnisframleiðandi í heimi,“ segir Friðrik í samtali við Morgunblaðið.
Friðrik, sem er menntaður flugvélaverkfræðingur og starfaði sem flugmaður í tuttugu ár hjá Icelandair og Arnarflugi, hefur helgað sig umhverfisvænum verkefnum síðan hann hætti að fljúga.
„Í fluginu fékk ég góða yfirsýn yfir plánetuna og mikilvægan skilning á lofthjúpnum,“ segir Friðrik.
„Ég áttaði mig á því hvað hjúpurinn er þunnur og viðkvæmur. Í framhaldinu fór ég að leita að tækni sem væri meira í sátt við umhverfið og lífríkið.“
Hann segir að CRI hafi orðið fyrst fyrirtækja til að búa til eldsneyti úr endurunnu koltvíildi. „Í dag er CRI með stærstu verksmiðju í heimi á þessu sviði í Kína og mun fljótlega opna aðra verksmiðju í Noregi.“
Friðrik segist hafa selt hlut sinn í fyrirtækinu til að fjármagna næstu verkefni.
„CRI hefur gengið mun hægar en ég vonaðist til, þó það hafi slegið í gegn í Kína. Ég hefði viljað sjá stóra verksmiðju á Íslandi sem séð gæti íslenska skipaflotanum fyrir eldsneyti.“
CRI rekur tilraunaverksmiðju í Svartsengi. Henni var lokað tímabundið vegna jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga.
„CRI á eftir að verða mjög stórt fyrirtæki. Fjárfestar í dag eru að mestu íslenskir og kínverskir,“ segir hann.
Kosturinn við að vera í umhverfisvæna orkugeiranum er sá að sögn Friðriks að mikið af fjármagni bíði á hliðarlínunni og leiti inn.
„Hið kapítalíska kerfi og tæknin mun leysa þessi vandamál á endanum. En við þurfum stuðning stjórnvalda til að stýra ferlum í átt að betri lausnum. Það eru ofboðsleg viðskiptatækifæri í grænum ferlum.“
Nánar er rætt við Friðrik í Morgunblaðinu í dag.