Boeing tapaði 90 milljörðum

Kona smellir sjálfu af sér og Boeing 747-400-vél sem lokið …
Kona smellir sjálfu af sér og Boeing 747-400-vél sem lokið hefur þjónustu og gegnir hlutverki skreytingar á 747 Cafe í Bangkok í Taílandi. AFP/Manan Vatsyayana

Boeing-flugvélaverksmiðjurnar tilkynntu um 634 milljóna dala tap á lokafjórðungi nýliðins árs, upphæð sem nemur 91,1 milljarði íslenskra króna, og skýrðu með stórauknum rekstrar- og innkaupakostnaði sem þurrkað hefði út gróða vegna aukinnar sölu farþegaþota undir lok ársins.

Skammt hefur verið stórra högga á milli í rekstri Boeing síðustu ár þar sem framleiðsluvandamál og seinkanir á vottunum í kjölfar 737 MAX-flugslysanna voru þrándur í götu. Árið 2022 var skársta ár fyrirtækisins síðan 2018 og jukust tekjur þess um 35 prósent, 20 milljarða dala, jafnvirði tæplega 2.900 milljarða króna, sem þó var undir því sem greinendur höfðu spáð.

Fleiri Dreamliner-vélar í ár

„Við áttum góðan lokafjórðung og árið 2022 var mikilvægt í bata okkar,“ segir Dave Calhoun, forstjóri Boeing, við AFP-fréttastofuna. „Eftirspurnin er sterk og við róum enn öllum árum að því að koma stöðugleika á starfsemina og aðfangakeðjuna til að standa við skuldbindingar okkar árið 2023,“ segir hann að auki.

Boeing-verksmiðjurnar hafa áður gefið út þann spádóm að fjárhagslegur styrkleiki þeirra verði orðinn til jafns við það sem hann var fyrir heimsfaraldur um það bil 2025 eða '26. Mikil spurn eftir farþegaflugförum á tímum þegar flugfélög endurnýja flota sinn og kaupa nýjar og sparneytnari vélar hefur makað krók Boeing þrátt fyrir að tafir og vandræðagangur við innkaup efnis og vélahluta hafi sett einhver strik í reikninginn.

Þá er afhending 787 Dreamliner-vélanna að ná sér á strik á ný eftir langt hlé og reiknar Boeing með að auka framleiðslu slíkra véla á nýju ári. Aðeins 31 Dreamliner-vél var afhent kaupendum í fyrra en áætlanir ársins 2023 gera ráð fyrir afhendingu 70 til 80 véla auk þess sem stefnt er að því að á bilinu 400 til 450 Boeing 737-vélar komist í hendur nýrra eigenda en það gerðu ekki nema 387 allt síðasta ár.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK