Fjárfesta í leiðtogum framtíðarinnar

Jan Simon, fjárfestir og stofnandi Vonzeo Capital, prófessor við Berkeley …
Jan Simon, fjárfestir og stofnandi Vonzeo Capital, prófessor við Berkeley og ÍESE og sérstakur ráðgjafi Leitar. Eggert Jóhannesson

Fyrir þá sem dreymir um að stýra fyrirtækjum eru augljósu leiðirnar tvær; annars vegar getur fólk unnið sig upp innan fyrirtækis og hins vegar er hægt að fá viðskiptahugmynd og stofna fyrirtæki í kringum hana. Þriðja leiðin er minna þekkt og felst í því að fólk kaupir sig inn í fyrirtæki og tekur við framkvæmdastjórastöðu um leið. Leitarsjóðir sérhæfa sig í þessari aðferð og hóf fyrsti íslenski sjóðurinn göngu sína á dögunum. Leitar Capital Partners stóðu fyrir kynningarfundi í Arion banka á dögunum þar sem hugmyndafræði leitarsjóða var kynnt. Meðal framsögumanna var Jan Simon, einn reyndasti fræðimaður og fjárfestir á þessu sviði, prófessor hjá IESE og Berkeley-Haas og sérstakur ráðgjafi hjá Leitar. ViðskiptaMogginn tók Jan Simon tali til að ræða þess lítt þekktu fjárfestingaleið, sem sífellt verður vinsælli.

„Í upphafi var ég hikandi; af hverju ættu fjárfestar að borga einhverjum fyrir að leita að fyrirtæki til að fjárfesta í í stað þess að einhver finni fyrirtæki og komi síðar til þín til þess að fá fjármögnun. En smám saman fór ég að skilja ekki bara hvernig leitarsjóðir virka heldur af hverju þeir virka,“ segir Jan Simon spurður um sín fyrstu kynni af leitarsjóðum.

Ein arðbærasta fjárfestingaleiðin

Kaup á fyrirtækjum snúast ekki aðeins um að peninga, heldur skipta aðrir þættir máli eins og reynsla og skilningur á mörkuðum, rekstri og kaupum á fyrirtækjum sem skipta máli. Markmið leitarsjóðs er því að nýta fjármagn en ekki síður reynslu og þekkingu þeirra fjárfesta og ráðgjafa sem standa að baki sjóðnum til að styðja við einstakling fullan af eldmóði. Sá einstaklingur getur síðar tekið við stöðugu og rótgrónu fyrirtæki og fært það upp á næsta stig.

Með einfölduðum hætti mætti segja að ferlið væri þríþætt. Í upphafi er fundinn einstaklingur sem hefur það að markmiði að verða framkvæmdastjóri í fyrirtæki, sá er kallaður „leitari“. Leitarinn fer af stað í vegferð með það að markmiði að finna fyrirtæki og svo kaupa það með fjármagni frá sjóðnum. Leitarinn sest þá í sæti framkvæmdastjóra í hinu keypta fyrirtæki, leiðir það í nokkur ár og selur svo. Þessi fjárfestingaleið er ein sú arðbærasta sem sögur fara af, en gögn sýna fram á að arðsemi af fjárfestingum leitarsjóða sé á bilinu 30-35% á ársgrundvelli.

Leitin að leitara

„Fyrsta spurningin sem einstaklingar þarf að svara er hvort hann eða hún vill verða framkvæmdastjóri í fyrirtæki. Það er lokamarkmiðið, að einstaklingurinn verði framkvæmdastjóri í litlu eða meðalstóru fyrirtæki,“ segir Jan Simon, aðspurður hvaða kostum einstaklingur þurfi að búa yfir til þess að geta orðið leitari. „Það markmið verður að vera ástríðan þín, og þetta verður að vera eitthvað sem þú þráir. Sennilega stenstu ekki kröfur sem gerðar eru til framkvæmdastjóra í dag, en þú ert tilbúinn að taka skrefið í áttina að þessum markmiðum.

Fleiri atriði eru mikilvæg, og menn hafa talað um að metnaður skipti máli,“ bætir hann við. „En ef þú blandar saman metnaði og auðmýkt – það er áhugaverð blanda sem við finnum ekki alltaf. Það er mikilvægt í okkar geira vegna þess að auðmjúkir einstaklingar eru góðir hlustendur. Til þess að læra af fjárfestunum sem standa að baki leitarsjóðnum skiptir höfuðmáli að geta hlustað.“

Jan nefnir að eiginleikar eins og ástríða og þrautseigja skipti miklu máli en reynsla og þekking á iðngreinum eða mörkuðum skipti minna máli. Enda eru það tól og tæki sem leitarinn tileinkar sér undir handleiðslu fjárfestanna í ferlinu.

Jan Simon flytur erindi í Arion Banka
Jan Simon flytur erindi í Arion Banka Aðsend

Leitin að rétta fyrirtækinu

„Í 85% tilfella eru eigendur fyrirtækja sem keypt eru af leitarsjóðum ekki farnir að hugsa sér að selja fyrr en leitarinn knýr á dyr,“ segir Jan um leitarferlið. „Það eru mismunandi leiðir til þess að hefja leiðina, sumir byrja á því að senda þúsundir tölvupósta en aðrir hringja köld símtöl. Því markvissari og persónulegri sem nálgunin er, því líklegra er að svörin séu jákvæð. En þú getur ekki hringt mörg persónusniðin símtöl í hverri viku. Það getur verið krefjandi að fá neikvæð svör á hverjum degi.

Það er ekki flókið að kaupa fyrirtæki með því að hafa samband við miðlara og kaupa fyrirtæki sem er til sölu. En það er ekki hugmyndafræðin sem við leggjum upp með, við viljum að leitarinn finni gott fyrirtæki, í framúrskarandi iðnaði á ásættanlegu verði. Það er ekki auðveld leit.“

Áhættan liggur í leitaranum

Leitarsjóðir horfa helst til fyrirtækja sem hafa ákveðin einkenni, þau eru lítil og frekar er horft til svokallaðra B2B-fyrirtækja eða fyrirtækja sem versla við önnur fyrirtæki en eru ekki í beinum viðskiptum við neytendur. Fyrirtækin mega ekki eiga allt undir fáum viðskiptavinum og varan sem fyrirtækið framleiðir má ekki vera of flókin.

„Þegar þú horfir á módelið, þá er þetta ástæðan fyrir því að leitarsjóðir virka. Þú gerir óreynda manneskju að framkvæmdastjóra í fyrirtæki og þar liggur áhætta. Til að mæta þessari áhættu eru fyrirtækin sem keypt eru á viðráðanlegu verði og í iðnaði þar sem sveiflur eru litlar,“ segir Jan. „Stórum hluta þessara fyrirtækja er stýrt af mönnum sem eru farnir að nálgast eftirlaunaaldur og farnir að njóta lífsins og eyða meiri tíma á golfvellinum. Þá kemur inn ungur og metnaðarfullur framkvæmdastjóri með sterka stjórn á bak við sig sem byggir á þessum trausta grunni.“

Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri Leitar Capital og Jan Simon
Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri Leitar Capital og Jan Simon Morgunblaðið/Eggert

Íslendingar sérstaklega áhugasamir

„Ég held að Íslendingar séu töluvert áhugasamari um leitarstjóði en ég hef áður séð. Það er einhver nýsköpunarkraftur innra með ykkur. Þegar fólk heyrir af hugmyndinni um að vera frumkvöðull og eignast hlut í félögum, án þess að leggja til eigið fé og vera um leið umkringdur reynsluboltum, þá láta viðbrögðin ekki á sér standa.“ Þessu til viðbótar nefnir Jan að það sé seigla og metnaður í Íslendingum, hér sé ríkur nýsköpunarkraftur. Það sjáist á aðsókninni á kynningarfundinum og fjölmargir ungir og metnaðarfullir einstaklingar hafa haft samband við Leitar til að kynna sér ferlið betur.

Fyrsti íslenski leitarinn, Kristín Soffía Jónsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri KLAK, mun leggja af stað í þessa vegferð nú í vor.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK