Þrjátíu umsóknir bárust vegna Fjárfestahátíðar

Frá hátíðinni á Siglufirði í fyrra.
Frá hátíðinni á Siglufirði í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Mikill áhugi er á Fjárfestahátíð Norðanáttar sem fram fer á Siglufirði 29. mars og voru þrjátíu umsóknir sendar inn. 

Er þetta í annað sinn sem Norðanátt heldur slíka hátíð á Siglufirði og verður tilkynnt 15. febrúar hvaða sprota- og vaxtarfyrirtæki verað fyrir valinu og fá tækifæri til að kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum 29. mars. 

Valnefndin sem fær það verkefni að velja úr umsóknunum þrjátíu er skipuð þeim Sigurði Markússyni forstöðumanni hjá Landsvirkjun, Melkorku Sigríði Magnúsdóttur eiganda Iceland Innovation Week, Hreini Þór Haukssyni framkvæmdastjóra hjá Íslenskum verðbréfum, Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans, Sveini Margeirssyni framkvæmdastjóra hjá Brimi og Kolfinnu Kristínardóttur verkefnastjóra hjá KLAK-Icelandic Startups. 

Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri Norðanáttar segir fjárfestahátíðina mikilvægan vettvang fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja kynna sínar hugmyndir fyrir fjárfestum, þar með sé einnig verið að auka fjárfestingartækifæri á landsbyggðinni. Kjarnastarfsemi Norðanáttar snúi að svokölluðum FEW-nexus eða matur- orka- vatn og þau verkefni sem taka þátt snerti á þessum áherslum með einum eða öðrum hætti.

„Verkefnin sem sækja um og taka þátt snerta öll á orkuskiptum, hringrásarhagkerfinu eða fullnýtingu auðlinda, en við leggjum mikinn fókus á að verkefni sem kynna á hátíðinni hjá okkur séu í takt við þessar áherslur. Ástæðan er sú að þetta eru að okkar mati stóru tækifærin í atvinnuþróun fyrir landsbyggðina. Nýsköpun í kringum auðlindirnar okkar og hringrásarhagkerfis hugsun er nauðsynleg ef við ætlum að ná samkeppnisforskoti á Íslandi,” er haft eftir Kolfinnu Maríu í fréttatilkynningu. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK