„Komnir með nóg á því hvernig kerfið er til fyrir sjálft sig“

Tryggvi Björn Davíðsson og Haukur Skúlason, stofnendur Indó.
Tryggvi Björn Davíðsson og Haukur Skúlason, stofnendur Indó. Ljósmynd/Aðsend

Indó, nýr íslenskur sparisjóður, opnaði formlega í dag og hafa allir landsmenn nú möguleika á að opna reikning hjá sparisjóðnum.

„Í dag opnum við fyrir alla. Þá er hægt að ná í appið og stofna reikning á innan við mínútu,“ segir Haukur Skúlason, annar stofnandi Indó og framkvæmdastjóri.

Fyrsti sparisjóðurinn frá 1991

Indó er sparisjóður, ekki banki, og sá fyrsti sem hefur verið stofnaður frá grunni frá árinu 1991. Haukur segir að það sem greini Indó frá annarri bankastarfsemi sé lítil yfirbygging og þar af leiðandi geti Indó boðið viðskiptavinum betri kjör.

„Við erum að bjóða mikið betri vexti á veltureikningum og munum bjóða upp á sparireikninga í vor. Núna bjóðum við upp á veltureikninga og debetkort. Það eru engin færslugjöld á kortum hjá okkur – við erum eina fjármálastofnunin sem býður upp á það,“ segir hann. 

Viðskiptavinir Indó geta stundað öll helstu bankaviðskipti líkt og hjá öðrum bönkum strax, eins og til dæmis að borga reikninga, greiða fyrir vörur og þjónustu um allan heim með VISA debetkortinu, símanum eða millifæra. 

Indó er fyrsti nýi sparisjóðurinn frá 1991.
Indó er fyrsti nýi sparisjóðurinn frá 1991. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert gjaldeyrisálag

„Við erum heldur ekki með neitt gjaldeyrisálag á erlend viðskipti. Þannig að ef þú ert að versla erlendis eða í erlendum netverslunum er yfirleitt smurt gjaldeyrisálag á kaupin. Við erum ekki með svoleiðis, við seljum bara gjaldeyrinn á því verði sem við kaupum hann sjálf.“

Spurður hver hugsjónin sé á bak við starfsemina, segir Haukur að hann og Tryggvi Björn Davíðsson, meðstofnandi hans, hafi báðir reynslu úr bankakerfinu en hafi verið komnir með nóg á því hvernig kerfið er til fyrir sjálft sig. 

„Við erum með fjölskyldur, erum viðskiptavinir og neytendur. Þetta kerfi er óskilvirkt og dýrt og einhvernvegin erum það alltaf við, venjulegt fólk, sem borgar brúsann. Við hugsuðum bara: Fyrst að þetta er ekki að fara að breytast, þá kýlum við á þetta og breytum þessu.“

„Við erum bara sparisjóður, búinn til af venjulegu fólki – ekki uppfullur af þessu bulli sem allt of mikið er af.“

Þurftu að sannfæra fjármálaeftirlitið

Spurður hvort að hann og Tryggvi hafi ekki rekist á veggi í regluverki, þar sem sparisjóðir hlíta sömu lögum og bankar, það er falla undir lög um fjármálastarfsemi segir Tryggvi svo ekki vera.

„Ég myndi ekki segja að við höfum rekið okkur á veggi þegar við vorum að fara af stað. Við þekkjum þetta vel, kunnum þennan rekstur og skiljum þennan markað. Við í raun unnum þétt með fjármálaeftirlitinu sem tók smá tíma að sannfæra um að okkur væri alvara með þetta. Þau sinntu sínu leiðbeiningarhlutverki mjög vel, eins og eftirlitshlutverkinu. Þau lögðu sig fram við að skilja hvað við ætluðum að gera og hvernig og létu okkur hafa fyrir því að skilja hvaðan þau voru að koma. Mér fannst þetta vera til fyrirmyndar.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK