Óvæntur samdráttur í Svíþjóð

Talsverðar áskoranir blasa við ríkisstjórn Ulfs Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, en …
Talsverðar áskoranir blasa við ríkisstjórn Ulfs Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, en þar er verðbólga í methæðum. Í dag kom einnig í ljós að samdráttur varð í landsframleiðslu á síðasta ársfjórðungi í fyrra. AFP/Pontus Lundahl

Óvæntur samdráttur varð á landsframleiðslu í Svíþjóð á fjórða ársfjórðungi í fyrra samkvæmt opinberum tölum sem birtar voru í dag. Samkvæmt tölum sænsku hagstofunnar dróst landsframleiðslan saman um 0,6% á síðustu þremur mánuðum ársins, en greiningaraðilar höfðu spáð 0,2% vexti.

Efnahagur Svíþjóðar er nokkuð útflutningsdrifinn, en veikleikar hafa komið í ljós undanfarið á sama tíma og barist er við verðbólgudrauginn þar líkt og víðar í álfunni sem og í heiminum.

Sænska hagstofan hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir árið í fyrra úr 2,7% niður í 2,4%. Er nú gert ráð fyrir að samdráttur verði á þessu ári, en að aftur verði örlítill hagvöxtur árið 2024.

Verðbólga mældist 12,3% í desember, en hún hefur ekki mælst hærri í yfir þrjá áratugi. Þá hefur gengi sænsku krónunnar aldrei verið veikara gagnvart evru. Þetta eru ekki einu neikvæðu hagtölurnar sem birtust í dag, því opinberar tölur frá Þýskalandi sýna að þar var einnig samdráttur á fjórða ársfjórðungi, en Þýskaland er stærsta staka hagkerfið innan Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK