Minnkun SAS eina lífsvon Flyr

Flyr hóf sig á loft sumarið 2021 og hugðist þá …
Flyr hóf sig á loft sumarið 2021 og hugðist þá bjóða risunum birginn, SAS og Norwegian. Sú stefna hefur nú beðið skipbrot og eina vonin að SAS dragi úr umsvifum með vorinu. Ljósmynd/Unfold

Nýja norska flugfélagið Flyr, sem fór í loftið með pompi og prakt 30. júní 2021, berst nú í bökkum fjárhagslega og kveður hagfræðiprófessor einfaldlega ekki pláss fyrir Flyr á markaðnum nema skandinavíska flugfélagið SAS dragi saman seglin.

Flyr fór í gegnum endurfjármögnun í nóvember í fyrra sem átti að tryggja því 700 milljóna norskra króna björgunarhring, upphæð sem nemur rúmum tíu milljörðum íslenskra króna. Var björgunin þó háð því að verð hlutabréfa félagsins héldist að lágmarki einn eyrir, 0,14 íslenskar krónur, á hlut, en það mark náðist ekki.

Þegar fregnir bárust svo af því um helgina að á morgun færi engin vél á vegum Flyr í loftið féllu bréf félagsins um rúm 70 prósent við opnun markaða í morgun.

„Hreinlega ekki pláss“

Téður prófessor er Frode Steen við Norska viðskiptaháskólann NHH. „Félagið hóf störf á markaði þar sem þegar var þröngt á þingi,“ segir Steen við norska ríkisútvarpið NRK, „félagið reiknaði með að rýmið ykist. Það gerðist ekki. Ofan á það hefur [flugfélagið] Widerøe róið meira á erlend mið en áður svo þrengslin hafa enn aukist. Góð viðskiptaáætlun og góð frammistaða dugir ekki til. Það er hreinlega ekki pláss,“ segir prófessorinn.

Svo úr þessu rætist þurfi SAS að draga úr umsvifum sínum. „Flyr þarf að þreyja þorrann þar til í mars eða apríl. Þá verður meira vitað um hvað gerist hjá SAS og þá má vera að landið taki að rísa, en félagið þarf að verða sér úti um fé svo vel fari, það er að tapa núna og alls óvíst að það komist á réttan kjöl,“ segir Steen enn fremur.

Flyr hefur flogið mikið í leiguflugi fyrir ferðaskrifstofuna Ving og segir talsmaður hennar við TV2 að viðskiptavinirnir fái að finna fyrir vandræðum Flyr með áþreifanlegum hætti hvað snertir flug til Mallorca, Krítar og Tenerife sem nú fellur niður á morgun og enginn veit hvað verður eftir það.

NRK

E24

TV2

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK