Orka náttúrunnar hefur ráðið tvo til starfa, þá Jóhann Inga Magnússon og Hrafn Leó Guðjónsson.
Í tilkynningu segir að Jóhann verði sölustjóri fyrirtækja- og einstaklingsmarkaða, þar sem hann muni koma að mótun stefnu og stýra öflugu söluteymi fyrirtækisins.
Jóhann Ingi er með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands en hann kemur frá bifreiðaumboðinu Heklu þar sem hann hefur m.a. starfað við vörumerkja- og sölustýringu á vörumerkjum fyrirtækisins.
Hefur hann einnig starfað áður hjá Bílabúð Benna við sölu og vörustýringu.
Hrafn tekur við starfi vörustjóra.
Segir í tilkynningu að þar muni hann koma að framþróun þjónustu sem tengist snjallmælum, orkuskiptum í samgöngum og nýjum lausnum.
Hrafn Leó er með BS-gráðu í rafmagnstæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík en hann kemur frá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hann starfaði sem verkefnastjóri orkuskipta í samgöngum.
Hrafn Leó leiddi einnig hugbúnaðar- og ferlaþróun snjallmælavæðingar Veitna. Áður starfaði hann hjá Securitas sem sölustjóri og yfirmaður vöruþróunar.
Haft er eftir Ingólfi Guðmundssyni, forstöðumanni sölu- og viðskiptaþróunar, að markmiðið sé að tryggja að ON hafi áfram ánægðustu viðskiptavinina á raforkumarkaði.
„Til þess þurfum við að hafa rétta skipulagið og ráða inn starfsmenn sem koma með reynslu og þekkingu sem nýtist okkur til vaxtar. Orka náttúrunnar hefur verið leiðandi í uppbyggingu hleðsluinnviða frá árinu 2014,“ segir Ingólfur.
„Markmið okkar er að veita framúrskarandi þjónustu með öflugum hleðslulausnum þar sem allir geta hlaðið á auðveldan hátt. Við viljum einnig bjóða upp á nýjar lausnir fyrir einstaklinga, húsfélög og fyrirtæki sem einfalda þeim að taka stærri skref í átt að umhverfisvænna lífi. Hrafn Leó og Jóhann eru svo sannarlega öflug viðbót við okkar teymi.“