17 milljarða hagnaður – 8,5 milljarðar í arð

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsbankans á árinu 2022 nam 17,0 milljörðum króna eftir skatta, en hann var 28,9 milljarðar árið 2021. Arðsemi eigin fjár var 6,3% á árinu 2022 eftir skatta, en var 10,8% árið 2021. Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 0,36 krónum á hlut vegna rekstrarársins 2022, samtals 8,5 milljarðar króna. 

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum, að hreinar vaxtatekjur hafi numið 46,5 milljörðum króna árið 2022. Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna nam 2,7% á árinu 2022.

Hreinar þjónustutekjur námu 10,6 milljörðum króna árið 2022. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 3,8 milljarða króna.

Hreint tap af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði nam 7.963 milljónum króna, en var árið á undan 5.980 milljóna króna hagnaður.

Lækkun á gangvirði hluta í Eyri Invest vó þyngst

Þar vegur þyngst lækkun á gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest hf. sem nemur 10.500 milljónum króna á árinu (2021: 2.076 milljóna króna hækkun). Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 2,5 milljarða króna á árinu 2022 (2021: 7,0 milljarðar króna), að því er bankinn greinir frá.

Rekstrartekjur bankans á árinu 2022 námu 53,3 milljörðum króna. Rekstrargjöld voru 25,9 milljarðar króna á árinu 2022 og eru óbreytt frá fyrra ári. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,5 milljarðar króna. Annar rekstrarkostnaður var 9,3 milljarður króna á árinu 2022. 

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2022 var 27,4 milljarðar króna samanborið við 36,5 milljarða árið 2021. Reiknaðir skattar, þar með talið skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja og sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 13,2 milljarðar króna árið 2022.

Arðgreiðslan samsvarar um 50% af hagnaði samstæðu bankans

„Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann 23. mars 2023 að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 0,36 krónum á hlut vegna rekstrarársins 2022, samtals 8,5 milljarðar króna. Arðgreiðslan samsvarar 50% af hagnaði samstæðu bankans á árinu 2022. Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013-2023 samtals nema 175,2 milljörðum króna,“ segir í tilkynningunni. 

Grunnrekstur bankans gekk vel á krefjandi ári

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu, að grunnrekstur bankans hafi gengið vel á krefjandi ári en lækkun á hlutabréfaeignum dragi afkomuna niður.

„Það er ánægjulegt að útlán til fyrirtækja jukust talsvert og það var áfram ágæt aukning í íbúðalánum þó hægt hafi á síðari hluta ársins. Viðskiptavinum bankans hélt áfram að fjölga, tekjur af fjölbreyttri starfsemi bankans jukust og rekstrarkostnaður var stöðugur. Innlán jukust töluvert og góður árangur við fjármögnun bankans á árinu 2021 gerði okkur kleift að bíða af okkur verstu sveiflurnar á fjármálamörkuðum á árinu 2022,“ segir Lilja enn fremur. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK