Lægri afkoma á 4. fjórðungi á milli ára

Höfuðstöðvar Arion banka í borgartúni.
Höfuðstöðvar Arion banka í borgartúni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Arion banka á fjórða ársfjórðungi á síðasta ári nam um fimm milljörðum króna en það er 1,5 milljörðum lægra en á fjórða ársfjórðungi 2021, þegar hagnaður nam um 6,5 milljörðum.

Jafnframt voru fjármagnstekjur bankans neikvæðar um þrjá milljarða á síðasta ári.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá Arion banka.

Hagnaður á hvern hlut lægri 

Jafnframt kemur fram að arðsemi eiginfjár var 10,7 prósent, samanborið við 13,4 prósent á fjórða ársfjórðungi árið 2021. Hagnaður á hvern hlut var einnig lægri miðað við fjórða ársfjórðung árið 2021. Hagnaður á hlut var 3,44 krónur á síðasta ársfjórðungi en 4,26 krónur á fjórða ársfjórðungi 2021.

Kjarnatekjur, það er hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur, jukust um 11,8 prósent frá fjórða fjórðungi 2021. Kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 53,8 prósent á fjórða fjórðungi 2022 en var 57,4 prósent á fjórða fjórðungi 2021.

Þá er einnig tekið fram að efnahagsreikningur bankans hafi stækkað um 11,9 prósent á síðasta ári og að arðgreiðsla og endurkaup eigin bréfa námu um 32,3 milljörðum. Stjórn Arion banka hefur lagt til að greiddur verði arður að fjárhæð 8,5 krónur á hlut.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Ljósmynd/Aðsend

Fóru yfir arðsemismarkmiðið

„Starfsemi Arion banka gekk vel á árinu þrátt fyrir að aðstæður hafi um margt verið  krefjandi. [...] Engu að síður var þróttur í íslensku efnahagslífi á árinu og útlit fyrir að hagvöxtur verði um 6-7%, meðal annars í krafti þess að við erum að miklu leyti sjálfbær í orkumálum með okkar grænu vatnsorku og jarðvarma. Arðsemi Arion banka á árinu 2022 var góð og yfir arðsemismarkmiði okkar,“ er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, í tilkynningunni.

Jafnframt bendir Benedikt á að bankinn hafi verið með hæstu markaðshlutdeildina þegar það kemur að veltu í kauphöllinni, bæði í skuldabréfum og hlutabréfum, á síðasta ári. 

„Alþjóðlegir lánsfjármarkaðir fóru ekki varhluta af þeirri óvissu sem fylgir stríðsátökum í Evrópu. Arion banki er hins vegar í þeirri góðu stöðu að engin aðkallandi endurfjármögnun er fram undan á árinu 2023. Reyndar er það svo að mikilvægasti þátturinn í fjármögnun bankans eru innlán viðskiptavina sem, þrátt fyrir harðnandi samkeppni, jukust um 15% á árinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK