Vörusala hjá Festi jókst um 20,1% á milli ára

Festi rekur meðal annars N1 og Krónuna.
Festi rekur meðal annars N1 og Krónuna. mbl.is/Árni Sæberg

Vörusala hjá Festi hf. sem rekur N1, Elko og Krónuna ásamt fleiru, nam 31,7 milljörðum króna á síðasta ári en það er 20,1 prósent aukning á milli ára. Vörusala fyrirtækisins nam 26,4 milljörðum króna árið 2021.

Þetta kemur fram í ársreikningi Festar

Besta EBITDA frá upphafi

Jafnframt kemur fram að N1, Elko og Krónan hafi skilað sinni bestu EBITDA-afkomu frá upphafi á síðasta ári ef ekki er tekið með í reikninginn söluhagnaður fasteigna hjá Krónunni á árinu 2021.

EBITDA-afkoma Festar nam 2,29 milljörðum á síðasta ári samanborið við 2,8 milljörðum árið 2021, sem jafngildir 18,4 prósent lækkun milli ára.

Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 6,8 milljörðum. Framlegðarstig nam 21,6% og lækkar um 3,1 p.p. en í uppgjörinu kemur fram að það sé vegna hækkunar á hrávöruverðum á heimsmarkaði milli ára.

Viðbótarkostnaður vegna nýs kjarasamnings á vinnumarkaði frá 1. nóvember nam um 200 milljónum á síðasta árs fjórðungi. Eigið fé í lok árs síðasta árs nam 34,46 milljörðum og eiginfjárhlutfall 36,9% samanborið við 39,4% í lok árs 2021.

Ein besta afkoman frá upphafi

„Árið 2022 litaðist af mikilli hækkun heimsmarkaðsverða á hrávörum sem leiddi til aukinnar veltu og lækkunar á framlegðarstigi, sérstaklega í eldsneytishluta starfseminnar. Aukin verðbólga og mikil hækkun stýrivaxta sköpuðu einnig áskoranir í rekstrinum en þrátt fyrir þetta tókst öllum fyrirtækjum samstæðunnar, með markvissum aðgerðum, að skila einni bestu rekstrarafkomu sinni frá upphafi,“ er haft eftir Magnúsi Kr. Ingasyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs- og staðgengils forstjóra Festar, í ársreikningnum.

Þá urðu þó nokkrar breytingar á lykilstjórnendum hjá Festi á árinu 2022 en Ásta Sigríður Fjeldsted var ráðin forstjóri Festi í september og tók við af Eggerti Þór Kristóferssyni, sem lét af störfum í júlí sama ár. 

Að auki tók Guðrún Aðalsteinsdóttir við sem framkvæmdastjóri Krónunnar af Ástu S. Fjeldsted í september og Óttar Örn Sigurbergsson tók við sem framkvæmdastjóri ELKO 1. janúar af Gesti Hjaltasyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK