Kynna 134 milljarða króna uppbyggingu

Þróunaráætlunin var kynnt að Ásbrú í dag.
Þróunaráætlunin var kynnt að Ásbrú í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, kynnti metnaðarfulla þróunaráætlun sína í dag. Kynnt var heildstæð sýn á uppbyggingu í kringum Keflavíkurflugvöll.

Þróunarsvæðin mynda saman vistkerfi sem á að einkennast af samvinnu og samlífi iðnaðar, samgangna, nýsköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar.

Um er að ræða 400 þúsund fermetra af landi til þróunar og uppbyggingar atvinnustarfsemi og 24 þúsund fermetra vegna uppbygginar þjónustu og verslunar til ársins 2035.

Gert er ráð fyrir um 134 milljörðum króna til uppbyggingar á árunum 2023 til 2050 sem skapar 1.400 stöðugildi í byggingariðnaði allan byggingartímann. Gert er ráð fyrir um 700 framtíðarstöðugildum á svæðinu og að um 4.900 framtíðarstöðugildi muni skapast vegna áhrifa þessara verkefna á svæðinu. Verkefnið felur í sér hærra menntunarstig, endurmenntun og þjálfun núverandi starfsfólks og til framtíðar.

Gert er ráð fyrir um 24,5 milljörðum króna í laun á ári og um 3,8 milljörðum króna í tekjur á ári sem skapa um 11,8 milljarða króna í skatttekjur til ríkis og sveitarfélaga.

Leigutekjur verða um 1,3 milljarðar króna á ári til ársins 2035 og rúmir sjö milljarðar króna á ári til ársins 2050. Verkefnið styður við sjálfbæra þróun Íslands með því að laða fyrirtæki framtíðarinnar til svæðisins og við þekkingarsköpun og sjálfbæran vöxt svæðisins.

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, kynnti áformin.
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, kynnti áformin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á Ásbrú verði 15 þúsund íbúar árið 2050

Á Ásbrú verði til húsnæðiskostir fyrir fjölbreytta samsetningu íbúa. Þétt og aðlaðandi íbúðahverfi með fjölbreyttum búsetu- og þjónustutækifærum. Nálægð við flugvöll skapar forsendur fyrir atvinnulóðir með aðgengi að flughlaði eða á mörkum flughlaðs og byggðar. Atvinnuhúsnæði verði notað til að bæta hljóðvist og ásýnd hverfisins með tilliti til nálægðar við flugvöllinn. Gert er ráð fyrir að svæðið verði framtíðarþróunarsvæði Reykjanesbæjar með 15 þúsund íbúa árið 2050 þar sem verður að finna skóla og aðra samfélagslega innviði. Jafnframt verður að finna útivistarsvæði, stíga, lifandi jarðhæðir og bíllaus svæði.

Hafnarsvæðið við Helguvík-Bergvík mun umbreytast í vistvænan iðngarð sem hefur að bera hágæða orkuinnviði og býr að nálægð við alþjóðaflugvöll. Svæðið verði góður staður fyrir þungaiðnað og lágkolefnisstarfsemi.

Anddyri Keflavíkurflugvallar mun fá hlutverk sem viðskiptakjarni með hótelum og aðstöðu fyrir flugvallartengda þjónustu.

Aðalgata verður miðpunktur suðurnesja í alfaraleið. Þar verður þjónusta fyrir 30 þúsund íbúa árið 2023 og 50 þúsund íbúa árið 2050. Þar verður að finna hótel, ráðstefnusali, heilbrigðisþjónustu, flugvallartengda þjónustu, skrifstofur og fleira. Þar verður samgöngumiðstöð fyrir þjónustukjarna og flugvöll. Aðalgata verður tenging fyrir íbúa, borgarbúa, ferðamenn og svo framvegis. Gert er ráð fyrir hágæða almenningssamgöngum.

Áætlunin nær til ársins 2050.
Áætlunin nær til ársins 2050. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nærri þriggja áratuga áætlun en fyrstu skrefin strax 

KCAP, arkitekta- og skipulagsstofan varð hlutskörpust í alþjóðlegri samkeppni Kadeco um þróun svæðisins.

Þróunaráætlunin nær til ársins 2050 en fyrstu skrefin verða tekin strax. Má þar nefna þróun grænna iðngarða við Helguvíkurhöfn, bættar almenningssamgöngur á milli flugvallar og höfuðborgar, tilraunir með eftirspurnardrifnar almenningssamgöngur og uppbygging íbúða á Ásbrú.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK