Rauðar tölur í morgun og titringur vegna falls SVB

Fall SVB í síðustu viku hefur orsakað titring á mörkuðum …
Fall SVB í síðustu viku hefur orsakað titring á mörkuðum um allan heim. Hlutabréf á meginlandi Evrópu sem og hér á Íslandi hafa lækkað nokkuð í viðskiptum í dag. AFP/Justin Sullivan

Hlutabréf hafa lækkað nokkuð skarpt bæði hér á landi sem og annars staðar í Evrópu eftir opnun markaða í morgun. Kemur lækkunin til þrátt fyrir tilraunir yfirvalda í Bandaríkjunum að auka aftur traust á fjármálakerfinu í kjölfar falls bandaríska fjárfestingabankans Silicon Valley Bank (SVB) í síðustu viku.

Úrvalsvísitalan hér á landi hefur lækkað um 2,89% það sem af er degi. Mest lækkun er á bréfum Sjóvár, um 4,71% og næst mest á bréfum Skeljar, um 4%, en þó aðeins í eins milljóna viðskiptum.

FTSE 100 vísitalan í Lundúnum hefur lækkað um tæplega 2% á meðan lækkun DAX-vísitölunnar í Þýskalandi er nokkuð meira, eða um 2,4%. CAC 40-vísitalan í Frakklandi hefur lækkað um tæplega 2,3% og á Ítalíu er lækkun FTSE MIIB-vísitölunnar yfir 4%.

Credit Suisse í sögulegu lágmarki

Hlutabréf svissneska bankans Credit Suisse hröpuðu hins vegar í morgun og lækkuðu um tæplega 9% og eru nú í sögulegu lágmarki. Stóð gengi bréfa bankans fyrr í morgun í 2,275 frönkum á hlut, en með því hafa bréf bankans lækkað um 81% síðan í mars árið 2021, þegar breska fjármálafyrirtækið Greensil fór á hausinn. Var það fyrsti skandallinn af mörgum sem komu illa við svissneska bankann á síðustu misserum.

Aðrir evrópskir bankar hafa einnig lækkað nokkuð í dag, en þýski bankinn Deutsche bank lækkaði um 6,7% í morgun og Commerzbank, næst stærsti banki Þýskalands lækkaði um tæplega 12%. Þýska fjármálaeftirlitið sendi í morgun frá sér tilkynningu þar sem tekið var fram að fall SVB væri ekki ógn fyrir fjárhagslegan stöðugleika í Þýskalandi þrátt fyrir titring á mörkuðum. Bent var á að eignir þýska útibús SVB hefðu aðeins verið um 790 milljónir evra um síðustu áramót.

Bandaríska fjármálaeftirlitið hefur sagt að það muni ekki koma til bjargar SVB, en að innistæður viðskiptavina verði tryggðar. Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK