CCP fær 5,6 milljarða fjármögnun til að þróa leik

Skjáskot/CCP

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur tryggt fjármögnun upp á 40 milljónir bandaríkjadala eða sem samsvarar um 5,6 milljörðum króna til þróunar á nýjum leik sem markar tímamót í 25 ára sögu fyrirtækisins, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þróun leiksins er þegar hafin í höfuðstöðvum CCP í Reykjavík en um er að ræða fyrsta leik fyrirtækisins sem mun nýta bálkakeðjutækni.

Færa til mörkin í leikjahönnun

„Með framförum í bálkakeðjutækni myndast spennandi tækifæri til að skapa enn meiri dýpt og frelsi fyrir spilarana okkar. Við höfum alltaf lagt okkur fram um að vera á mörkum hins mögulega og ganga skrefinu lengra.

Með því að nota bálkakeðjur færum við enn á ný til mörkin í leikjahönnun, sköpum ný spennandi tækifæri fyrir spilara og frelsi til að skapa eigin upplifanir,“ er haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni, forstjóra CCP sem bætir við að forsvarsmenn CCP séu afar þakklátir fyrir traust samstarfsaðila sinna við gerð þessa nýja leiks.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Ljósmynd/CCP

Einn umfangsmesti fjárfestir heims

Í tilkynningunni segir að Andreessen Horowitz, einn umfangsmesti fjárfestir heims í nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum, leiði fjármögnunina en hann hefur meðal annars verið í fararbroddi fjárfestinga í Airbnb, Skype, Twitter og Facebook. Auk Andreessen Horowitz taka Makers Fund, Bitcraft og fleiri aðilar þátt í fjármögnuninni.

„CCP er brautryðjandi á sviði tækni og sýndarveruleika með 25 ára reynslu af vöruþróun og að viðhalda stafrænum hagkerfum í gegnum EVE Online.

Starfsfólk CCP býr yfir hafsjó af reynslu og við höfum mikla trú á framtíðarsýn fyrirtækisins um að skapa magnaða upplifun á mótum framúrskarandi leikjahönnunar og bálkakeðjutækni,“ er haft eftir Jon Lai, meðeiganda hjá Andreessen Horowitz, en samhliða sjálfstæðri fjármögnun er framleiðsla hins nýja leiks aðskilin frá öðrum verkefnum CCP.

Ástríða fyrir nýsköpun

„Gæði EVE Online og margslungið hagkerfi leiksins hafa sett háan staðal innan leikjaiðnaðarins og sem dæmi má nefna að gjarnan er litið til EVE Online sem fordæmis við gerð bálkakeðjuleikja,“ er haft eftir Aðalsteini Rúnari Óttarssyni, fjárfestingastjóra hjá Makers Fund.

„Sem fyrrum starfsmaður CCP finnst mér sérstaklega ánægjulegt að eiga aftur samleið með fyrirtækinu og sjá að þar hefur ástríðan fyrir nýsköpun á sviði leikjaþróunar síður en svo dvínað. Við erum spennt að styðja við sýn CCP við að víkka enn frekar út EVE heiminn með nýrri tækni,“ er enn fremur haft eftir honum.

CCP fagnar 20 ára afmæli EVE Online og EVE leikjaheimsins í ár. Fyrirtækið mun halda upp á þessi tímamót á EVE Fanfest hátíðinni í Reykjavík dagana 21. til 23. september næstkomandi, þar sem búist er við yfir þúsund spilurum EVE Online, auk blaðamanna og starfsfólks tölvuleikja- og tæknigeirans til landsins, eins og segir í tilkynningunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK