„Við getum ekki beðið eftir neinum öðrum“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir alla hjálp frá ríkisvaldinu þegar komi að því að draga úr þenslu vera vel þegna, en að Seðlabankinn mun ekki bíða eftir neinum. Því hafi verið ákveðið að stíga stór skref í dag þegar stýrivextir bankans voru hækkaðir um eitt prósentustig, en þeir standa nú í 7,5%.

„Það sem Seðlabankinn er að fókusa á núna er það verkefni sem honum er falið þannig að við getum ekki beðið eftir neinum öðrum að gera neitt. Við verðum að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru,“ sagði Ásgeir á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun.

Öll hjálp úr ríkisfjármálum vel þegin

Ásgeir sagði verðbólguna núna vera á nokkuð breiðum grunni, ekki að íbúðahækkanir væru að drífa hana áfram eins og var stærsta ástæðan stóran hluta síðasta árs. Segir hann þar spila inn í innflutta verðbólgu vegna mikilla kostnaðarhækkana erlendis, en einnig gríðarlega mikla eftirspurn hér á landi. „Við því þurfum við að bregðast,“ sagði Ásgeir.

Hann beindi orðum sínum næst á ríkisvaldinu og útgjöldum hins opinbera. „Öll hjálp sem við fáum frá fjárlögum ríkisins er vel þegin, en við erum ekki að bíða eftir því.“

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, tók undir þetta með Ásgeiri þegar hún sagðist tala út frá eigin skoðun. „Við erum yfirleitt ekki sérstaklega með skoðun á því hvað ríkissjóður gerir eða ekki en ef ég tala fyrir sjálfa mig held ég að það hefði hjálpa til og myndi hjálpa til ef gripið yrði til einhverra aðgerða á tekjuhliðinni sem virkuðu hratt og drægju úr eftirspurn.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beint að aukinni lántöku og fjárfestingum fyrirtækja

Bæði töluðu þau um að hvernig vaxtahækkunin þyrfti að hafa þau áhrif að fjárfesting fyrirtækja drægist saman. Þannig benti Ásgeir á að mikil aukning útlána hefði verið til fyrirtækja á síðustu mánuðum og í fyrra hefði aukningin numið 400 milljörðum króna. Sagði hann peningastefnunefndina að einhverju leyti vera að reyna að leiða peningastefnuna í þá átt að bregðast við því ástandi.

Rannveig sagði fjárfestinga atvinnuveganna hafa verið mun sterkari en gert hafði verið ráð fyrir. Horfa yrði til þess að við vaxtaákvörðun væri einnig verið að horfa til þessara útlána en ekki bara til fasteignalána til einstaklinga. Hækkanirnar séu miðaðar að því að bíta á fleiri þáttum eins og þessu með fyrirtækin.

„Það er ekkert fengið með því að bíða“

Ásgeir sagði jafnframt að þó að verðbólga væri þrálát þá benti allt til þess að leiðni peningastefnunnar væri góð og að hækkanir hefðu miðlast vel. „Það er ekki hægt að segja að miðlunarkerfið sé stíflað,“ sagði hann. Hins vegar hafi mikið lagst gegn aðgerðum bankans. Það hafi verið í formi mikils hagvaxtar, launahækkana og gríðarlegri aukningu í eftirspurn.

„Sjáum ekki betur en að allir kanalar peningastefnunnar viki mjög vel. Stýrivaxtabreytingar okkar hafa töluvert mikil áhrif. Þess vegna teljum við mjög mikilvægt að grípa til aðgerða strax og stíga stór skref. Vonandi leiðir til þess að við náum árangri fyrr og við getum náð jafnvægi fyrr í efnahagslífinu. Það er ekkert fengið með því að bíða,“ sagði Ásgeir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK