Marel greiðir 1,75 milljarða í arð

Marel.
Marel. mbl.is/Hjörtur

Aðalfundur Marel fór fram í gær og voru allar tillögur stjórnar til fundarins samþykktar. Þar á meðal var samþykkt að greiða út arð að fjárhæð 1,56 evrusent á hvern hlut fyrir rekstrarárið 2022.

Heildargreiðsla nemur um 11,7 milljónum evra, sem nemur rúmlega 1,75 milljörðum króna, eða um tuttugu prósentum af hagnaði fyrirtækisins á liðnu ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Marel.

Stjórnarmeðlimir endurkjörnir

Stjórnarformaður félagsins, Arnar Þór Másson, ávarpaði fundinn fyrir hönd stjórnar og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri, gaf skýrslu um fjárhagsárið 2022 og veitti innsýn í starfsemi félagsins. 

Á fundinum voru þau Ann Elizabeth Savage, Arnar Þór Másson, Ástvaldur Jóhannsson, Lillie Li Valeur, Ólafur Steinn Guðmundsson, Svafa Grönfeldt og Ton van der Laan öll endurkjörin í stjórn Marel.

Samþykktu kaupauka í formi hlutabréfa

Að auki var tillaga um stefnu félagsins um kaupauka í formi frammistöðutengdra hlutabréfa  samþykkt. Hluthafar samþykktu einnig tillögu um stjórnarlaun vegna ársins 2023 og þóknun til endurskoðenda fyrir liðið starfsár. 

Jafnframt var samþykkt tillaga um endurnýjun á grein í samþykktum félagsins sem heimilar stjórninni að hækka hlutafé um allt að 75 milljónir króna að nafnvirði með útgáfu nýrra hluta til að nota í tengslum við fyrirtækjakaup félagsins eða stefnumarkandi fjárfestingar.

Endurskoðunarskrifstofan KPMG ehf. var kosin endurskoðandi félagsins. 

Markmið um EBIT helst óbreytt

„Frá skráningu á hlutabréfamarkað árið 1992 hefur Marel þróast frá því að vera sprotafyrirtæki með 45 starfsmenn og 6 milljónir evra í árstekjur yfir í leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki á sviði lausna, hugbúnaðar og þjónustu í matvælavinnslu með um 8.000 starfsmenn og 1,7 milljarð evra í tekjur,“ kemur fram í skýrslu stjórnarformanns Marel, Arnars Þórs Mássonar.

„Á árinu 2023 munu áherslur félagsins einkum felast í enn nánara samstarfi við viðskiptavini okkar samhliða aukinni skilvirkni og hraða á grundvelli innviðafjárfestinga. Markmið okkar um 14-16% EBIT í lok ársins helst óbreytt. Vert er að minna á að tekjur og pantanir geta sveiflast á milli ársfjórðunga.

Við höldum áfram að fjárfesta í innviðum og sjálfvirknivæðingu til að styðja við metnaðarfull markmið okkar um að 50% af tekjum félagsins komi frá þjónustu og hugbúnaði árið 2026,“ kemur fram í skýrslu Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marel.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK