Barátta um og innan Seðlabankans trufli störf hans

Ásgeir Jónsson og Rannveig Sigurðardóttir kynntu ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans í …
Ásgeir Jónsson og Rannveig Sigurðardóttir kynntu ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barátta um völd og áhrif innan Seðlabankans og pólitísk barátta um skipulag bankans er hvoru tveggja til þess fallin að trufla störf hans og veikja bankann í því að takast á við verðbólgu. Þá er óvíst hvernig Alþingi mun taka á frumvarpi um skipulag bankans, sem aftur veldur óvissu um það hvernig bankanum tekst til í störfum sínum.

Um þetta er fjallað í nýjasta þætti hlaðvarps Þjóðmála. Þar ræða Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja á visir.is, og Stefán Einar Stefánsson, viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu, meðal annars um ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að hækka stýrivexti um eitt prósentustig í vikunni og þá miklu áskorun sem felst í því að takast á við háa verðbólgu.

Hörður segir í þættinum að ákvörðunin um að hækka vexti um eitt prósentustig hafi komið mörgum á óvart, enda ljóst að um óvinsæla ákvörðun sé að ræða. Aftur á móti sýni viðbrögð skuldabréfamarkaðarins í kjölfar hækkunarinnar að markaðurinn telji, í fyrsta sinn í nokkurn tíma, aðgerðir Seðlabankans trúverðugar.

„Öllum má þó vera ljóst að það verða aftur stigin stór skref í maí,“ segir Hörður og vísar þar til þess að von sé á frekari hækkun stýrivaxta við næstu vaxtaákvörðun bankans í maí.

Stefán Einar tekur undir þetta og bætir við að augljóst sé að sársaukafullar aðgerðir séu framundan. Því sé undarlegt að sjá umræðu um að ríkið þurfi að bregðast við til að halda uppi einkaneyslu.

„Seðlabankinn á erfitt með að segja það beint út, en bankinn er með vaxtahækkunum að draga úr kaupgetu. Hann er viljandi að þyngja róður okkar til þess að kæla hagkerfið sem er of heitt,“ segir hann.

„Ef stjórnvöld grípa til aðgerða sem núlla út eða draga úr áhrifum vaxtahækkana, þá mun Seðlabankinn neyðast til að skrúfa vextina enn frekar upp.“

Togsreita innan bankans og pólitísk afskipti

Í þættinum víkur Gísli Freyr Valdórsson, umsjónarmaður hlaðvarpsins og fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, að því að það hafi komið á óvart að þau Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri hafi lítið fjallað um ríkisútgjöld þegar þau kynntu ákvörðun nefndarinnar um hækkun vaxta á miðvikudag. Þá er einnig fjallað um ummæli Rannveigar, sem hún lýsti sem sinni persónulegri skoðun, um að ríkið þyrfti að hækka skatta.

Í framhaldi af því eru rifjuð upp átök sem átt hafa sér stað innan Seðlabankans, meðal annars út af skipulagsbreytingum sem Ásgeir gerði eftir að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið (FME) voru sameinuð.

„Ég set þetta í samhengi við mikla togstreitu og valdabaráttu milli Ásgeirs annars vegar og svo þeirra sem eru honum mótdrægir hins vegar,“ segir Stefán Einar.

„Það er barátta sem hefur helst átt sér birtingarmynd í athyglisverðum og síendurteknum en lítt breyttum greinum Oddnýjar Harðardóttur [þingmanns Samfylkingarinnar], þar sem er verið að taka undir sjónarmið sem hafa komið fram í skýrslum að það sé óheppilegt að það sé einn aðalseðlabankastjóri. Það vita auðvitað allir sem þekkja eitthvað inn á fjármálamarkaðinn hvaðan þessum rýting er stefnt. Það er uppsagnarmál innan Seðlabankans. Ásgeir Jónsson tók þá ákvörðun að losa sig við Jón Þór Sturluson, sem var aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, og það hefur ekki verið fyrirgefið. Jón Þór hefur róið mikið undir í því að veikja stöðu Ásgeirs.“

Hann bætir við að þetta undirstriki hversu óþægilegt það sé að Seðlabankinn sé ekki að fullu sjálfstæður, þ.e. að breytingar sem þingið getur nú gert á skipulagi bankans með fulltingi fjármálaráðuneytisins, sé svipa á seðlabankastjóra sem þori ef til vill ekki að segja það sem honum ber. Hann rifjar upp að Samfylkingin hafi árið 2009 rekið þrjá seðlabankastjóra samhliða því sem lögum um Seðlabankann var breytt og skipaður var einn seðlabankastjóri.

„Nú erum við komin í þá skringilegu stöðu að Samfylkingin hafi gert það að sínu hjartans máli að vinda ofan af þessari sameiningu,“ segir Hörður og vísar þar til sameiningar Seðlabankans og FME, sem framkvæmd var eftir ráðleggingum alþjóðastofnana og í nokkuð pólitískri sátt.

Bankinn telji lítils að vænta frá stjórnvöldum

Hörður velti þó upp öðru sjónarhorni í umræðu um þetta og sagði ákveðin skilaboð felast í því að ekki sé fjallað um aukin ríkisútgjöld, hvorki í yfirlýsingu peningastefnunefndar ná á fyrrnefndum fundi. Það kunni að fela í sér ákveðið „diss í garð stjórnvalda“ eins og hann orðar það, þar sem að Seðlabankinn meti það sem svo að stjórnvöld sitji aðgerðarlaus og séu ekki að sinna sínu hlutverki í því að ná niður verðbólgu. Hann segir að aðilar vinnumarkaðarins hafi samið um kjarasamninga sem auki verðbólguþrýsting og að það séu litlar líkur á því að ríkið dragi saman seglin.

„Seðlabankinn hugsar, við erum ein í þessu og búin að gefast upp á því að bíða eftir öðrum,“ segir Hörður.

Síðar í þættinum er fjallað um ummæli þingmanna sem telja rétt að hækka skatta en tala minna um útgjaldahlið ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK