Enginn þorði að segja neitt

Björn Leifsson í æfingasal World Class í Laugum.
Björn Leifsson í æfingasal World Class í Laugum. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Leifsson og fjölskylda misstu næstum fyrirtæki sitt World Class eftir efnahagshrunið. Þá varð hann, sem andlit World Class, skotspónn þeirra sem töldu rangt við haft í samfélaginu. Ólíkt almenningi hefðu eigendur World Class fengið afskriftir til að halda fyrirtækinu á floti. Rætt var um háar fjárhæðir.

Björn segir þetta hafa verið alrangt. Þau hafi ekki fengið neinar afskriftir.

„Ég sagði nú oft á sínum tíma að það eina sem mér þætti svekkjandi við allt þetta blogg og kjaftæði um mig væri að það skyldi ekki einn taka upp hanskann fyrir mig og reyna að verja mig. Við fjölskyldan eigum marga vini og höfum lagt mörg hundruð manns lið í gegnum tíðina, íþróttafólki og öðrum. Ástæðan fyrir því að þetta fólk sagði ekki neitt í þessu ástandi var sú að það vildi heldur þegja en fá drullusletturnar yfir sig,“ segir Björn.

Jógakennarinn benti á Keflavík

Björn og fjölskylda undirbúa nú byggingu heilsuræktarstöðvar, baðlóns og hótels í Keflavík.

En hvaðan kom hugmyndin að lóninu?

„Það er eiginlega svolítið skondið. Við vorum að spá í stöð í Keflavík þegar stúlka sem er frá Keflavík, og er að kenna jóga hjá okkur, spurði hvers vegna við keyptum ekki Steypustöðina og opnuðum stöð þar. Það tók mig nokkra mánuði að finna út hver átti Steypustöðina. Það kom í ljós að það var félag sem bærinn átti og þá fórum við að vinna í því. Því lauk með því að bærinn auglýsti Steypustöðina til sölu og við urðum hlutskörpust. Þá sendi bærinn mér gagntilboð þar sem þeir bjóða mér þessa lóð gegn því að ég rífi Steypustöðina. Svo var það einn dag í faraldrinum, þegar ekkert var að gerast og ég skítblankur, að ég horfi á teikninguna og allt í einu lýstur hugmynd í hausinn á mér: Af hverju ekki að opna lón þarna? Og á fyrsta Zoom-fundinum með þeim sem réðu í bænum varpaði ég þessari hugmynd upp á skjá hjá þeim og það var gripið á lofti,“ segir Björn.

Ítarlega er rætt við hann um viðskiptaferilinn í ViðskiptaMogganum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK