Stjórnarformaður náði ekki kjöri

Aðalfundur Nova fór fram í kvöld.
Aðalfundur Nova fór fram í kvöld. Ljósmynd/Gunnar Svanberg

Aðalfundur fjarskiptafyrirtækisins Nova fór fram í kvöld og hlutu þrír nýir stjórnarmeðlimir kjör. Stjórnarformaður Nova, Hugh Short, var einn af þeim sem ekki náði kjöri.

Samkvæmt heimildum Innherja hlaut Short ekki kjör þrátt fyrir að hafa verið í hópi þeirra sem tilnefningarnefnd mælti með til stjórnarsetu. Fyrirtækið sem Short vinnur hjá, PT Capital er næststærsti hluthafi Nova.

Þau sem hlutu kjör eru Hrund Rudólfsdóttir, Jón Óttar Birgisson, Jóhannes Þorsteinsson, Magnús Árnason og Sigríður Olgeirsdóttir en Sigríður var einnig kjörin formaður. Nýjir meðlimir stjórnar eru Jóhannes, Magnús og Sigríður.

Jóhannes starfar sem yfirmaður fjárstýringar hjá bandaríska fjarskiptafyrirtækinu T-Mobile, Magnús starfar sem ráðgjafi með reynslu á sviði markaðsmála, stafrænnar þróunar og fjarskipta og Sigríður starfar sem stjórnandi á sviði hugbúnaðar og hátækni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Í tilkynningunni segir að þetta sé í fyrsta skipti í sögu skráðs félag á markaði hér á landi þar sem aðalfundi var eingöngu stýrt af konum en það voru Hrund Rudólfsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Svanhildur Magnúsdóttir og Ásta Guðjónsdóttir sem sáu um það.

„Fráfarandi stjórnarmeðlimum þakka ég fyrir samstarfið um leið og við bjóðum nýja stjórnsama og skemmtilega einstaklinga velkomna í Nova liðið. Við hlökkum til samstarfsins en öflug og góð stjórn skiptir sköpum í rekstri félagsins. Ný stjórn á eftir að skora á okkur í Nova liðinu, vinna þéttan takt í stefnumótun með lykilstjórnendum og klappa okkur á bakið þegar við stöndum okkur vel. Þannig mun Nova halda áfram að vaxa og dafna inn í framtíðina,“ er haft eftir Margréti Tryggvadóttur, skemmtana- og forstjóra Nova

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK