Löggjöfin muni ekki draga úr kolefnislosun

Jóhannes Þór Skúlason
Jóhannes Þór Skúlason Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) telja að fyrirhuguð löggjöf Evrópusambandsins, sem hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, muni leggjast þungt á flugfélög með tengimiðstöð á Íslandi, einungis vegna landfræðilegrar legu, þar sem hún feli í sér aukinn kostnað vegna kolefnislosunar. Segja samtökin að löggjöfin muni leiða til þess að samkeppnisstaða íslenskra flugfélaga veikist.

SAF ályktuðu um þetta á aðalfundi sínum í dag.

„Að óbreyttu mun þetta leiða til þess að samkeppnisstaða íslensku flugfélaganna veikist gríðarlega með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á ferðaþjónustu, flutninga, annað íslenskt atvinnulíf og samfélag í heild sinni,“ segir í ályktunni.

Löggjöfin stuðli að kolefnisleka

Þá telja SAF að löggjöfin muni ekki draga úr kolefnislosun, eins og markmið hennar er, heldur muni hún stuðla að kolefnisleka.

„Boðuð löggjöf mun jafnframt ekki draga úr kolefnislosun, heldur þvert á móti stuðla að kolefnisleka, enda er í dag almennt umhverfisvænna að fljúga á minni flugvélum yfir Atlantshafið, líkt og þeim sem íslensku flugfélögin nota í sínum rekstri, með viðkomu á Íslandi frekar en að fljúga beint yfir Atlantshafið á breiðþotu.“

Mikilvægt að stjórnvöld verji hagsmuni Íslands

Í ályktunni kemur einnig fram að samtökin styðji vegferð stjórnvalda um að semja um það að löggjöfin taki tillit til landfræðilegrar legu Íslands.

„Það er mikilvægt að stjórnvöld verji hagsmuni Íslands þegar löggjöfin verður innleidd á Íslandi til þess að tryggja sjálfbæra framtíð og verja  mikilvægan ávinning af flugi hérlendis. Samtök ferðaþjónustunnar styðja því heils hugar þá vegferð stjórnvalda að semja um að löggjöfin taki tillit til landfræðilegrar legu Íslands þannig að samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga, Keflavíkurflugvallar sem tengimiðstöðvar og áfangastaðarins Íslands verði tryggð.“

Icelandair - Keflavíkurflugvöllur - Leifsstöð - Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Icelandair - Keflavíkurflugvöllur - Leifsstöð - Flugstöð Leifs Eiríkssonar mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK