Fjárfesti í öllum bönkunum áður en þeir féllu

Lítið blað á stórum glugga segir vegfarendum frá örlögum bankans. …
Lítið blað á stórum glugga segir vegfarendum frá örlögum bankans. Frá San Francisco í gær. AFP

Fall bandaríska bankans First Republic Bank er enn eitt áfallið fyrir einn stærsta lífeyrissjóð Svíþjóðar, Alecta.

Sjóðurinn tilkynnti um miðjan mars að hann hefði tapað um 19,6 milljörðum sænskra króna vegna fjárfestinga sinna í þremur bandarískum bönkum: Silicon Valley Bank (SVB), Signature Bank og First Republic.

Silicon Valley Bank og Signature Bank höfðu þá þegar fallið.

Salan markaði tímamót í Stokkhólmi

Aðeins nokkrum dögum fyrir fall SVB hafði Alecta tjáð sænska dagblaðinu Dagens Industri að sjóðurinn hefði selt hluti sína í tveimur af stærstu bönkum Svíþjóðar til að auka við fjárfestingar sínar í bandarísku bönkunum.

Salan þótti marka tímamót í Stokkhólmi. Alecta hafði enda átt hlut í öðrum bankanna, Handelsbanken, frá árinu 1951.

Tæpum tveimur mánuðum síðar er þriðji bandaríski bankinn fallinn, sem Alecta hafði fjárfest í.

Eins og greint var frá í gær hefur bankarisinn JPMorgan Chase tekið yfir starfsemi First Republic, að beiðni yfirvalda vestanhafs. Fjármálaeftirlitið í Kaliforníuríki tók yfir starfsemi bankans fyrir opnun í gærmorgun og í kjölfarið var meginþorrinn af starfsemi hans fluttur undir JPMorgan.

Fall bankanna hefur haft áhrif á einn stærsta lífeyrissjóð Svíþjóðar.
Fall bankanna hefur haft áhrif á einn stærsta lífeyrissjóð Svíþjóðar. AFP

Næststærsta gjaldþrot sögunnar

Fall First Republic í gær er næststærsta gjaldþrot viðskiptabanka í sögu Bandaríkjanna á eftir Washington Mutual, sem féll í fjármálakrísunni haustið 2008.

Hlutabréf í First Republic voru í frjálsi falli í síðustu viku, eða frá því að bankinn upplýsti í byrjun síðustu viku að innlán hefðu minnkað um 100 milljarða bandaríkjadala (13.625 milljarða króna) á fyrsta fjórðungi ársins.

Jamie Dimon forstjóri JPMorgan sagðist í samtali við fjölmiðla í gærmorgun vonast til þess að kaupin á bankanum myndu lægja öldurnar á bankamarkaði, en First Republic er fjórði bankinn sem verður gjaldþrota vestanhafs á þessu ári.

Rúmir 90 milljarðar dala af innstæðum úr First Republic munu færast yfir til JPMorgan. Þá kaupir JPMorgan verðbréfasafn bankans, sem metið er á um 30 milljarða dala, og 170 milljarða dala útlánasafn hans.

Losuðu sig við framkvæmdastjórann

Alecta tilkynnti þann 11. apríl að sjóðurinn hefði leyst framkvæmdastjóra sinn frá störfum.

„Stjórnin hefur nú komist að því að Alecta þarfnist nýrrar forystu til að koma í kring nauðsynlegum breytingum á eignastýringu og til að afla trausts að nýju,“ sagði þá í yfirlýsingu. 

Framkvæmdastjórinn Magnus Billing steig þá samstundis úr stóli.

Um sama leyti tilkynnti sjóðurinn að skipt yrði um yfirmann eignastýringar.

Jafnframt yrði dregið úr þeirri áhættu sem fylgi stórum eignarhlutum í einkafyrirtækjum langt fjarri heimamarkaði.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK