Hagnaður OR dregst saman um 65,4%

Hagnaður OR dregst verulega saman á milli ársfjórðunga.
Hagnaður OR dregst verulega saman á milli ársfjórðunga. mbl.is/Ari Páll

Hagnaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur dróst saman um 65,4% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra. Rekstrartekjur OR námu tæplega 16,2 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi en voru á sama tíma í fyrra tæplega 15,7 milljarðar. Aftur á móti jókst rekstrarkostnaður um tæpan milljarð á milli ára og nam á fyrsta ársfjórðungi 6,4 milljarði króna.

Hagnaður dregst saman

Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi dregst saman um 65,4 prósent en hann nam rúmlega 2,3 milljörðum króna samanborið við tæplega 6,8 milljarða króna hagnað á sama tíma í fyrra. Í fréttatilkynningu frá OR segir að þetta útskýrist m.a. af auknum rekstrarkostnaði og lækkuðu álverði. Veltufé frá rekstri er þó sambærilegt við fyrsta ársfjórðung 2022.

Tekjur samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi vaxa frá fyrra ári en rekstrarkostnaður einnig. Kostnaðarmegin munar mestu um aukin kaup á raforku til endursölu og hækkaða gjaldskrá vegna flutnings á rafmagni. Ör uppbygging nýsköpunarfyrirtækisins Carbfix kemur einnig fram í uppgjörinu. Þetta, ásamt samdrætti í tekjum af raforkusölu til stóriðju vegna lækkaðs álverðs, veldur því að framlegð og rekstrarhagnaður var minni á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs en á sama tíma 2022,“ segir í tilkynningunni.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta nam tæplega sex milljörðum í ár, samanborið við tæplega sjö milljarða í fyrra.

Fram kemur í árshlutareikningnum að vaxtagjöld hafi aukist um rúmlega 1,4 milljarða milli ára, auk þess sem aðrar tekjur af fjáreignum og fjárskuldum lækkuðu mikið og námu í ár 1,4 milljörðum samanborið við 6,7 milljarða á sama tímabili í fyrra. Var því hagnaður samstæðunnar eftir fjármagnsliði og afskriftir 3,1 milljarður í ár samanborið við 10,8 milljarða í fyrra.

Hafa fjárfest fyrir 4,7 milljarða

Veitur leiða lestina í fjárfestingum innan samstæðunnar með 2,8 milljarða króna fjárfestingu á fyrsta ársfjórðungi. Hafa þær fjárfestingar farið í byggingu nýrrar dælustöðvar fráveitu við Vogabyggð, endurnýjun Deildartunguæðar og snjallvæðingu orkumæla á veitusvæðinu.  Í heildina hafa fjárfestingar innan samstæðunnar numið 4,7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Innan samstæðunnar eru fyrirtækin Carbfix, Orka Náttúrunnar, OR, Ljósleiðarinn og Veitur.

Skuldabréfaútboð skilað 7,5 milljörðum

Samstæðan hefur haldið tvö skuldabréfaútboð það sem af er ári og með því aflað samtals 7,5 milljarða króna. Verður það fé nýtt til nýrra fjárfestinga sem og afborgana af eldri lánum.

Í tilkynningunni er einnig minnst á stöðu dótturfélaganna Carbfix og Ljósleiðarans. „Þá stendur nú yfir undirbúningur að útgáfu nýs hlutafjár í Ljósleiðaranum, sem heimild hefur fengist til að selja nýjum meðeigendum að fyrirtækinu. Samsvarandi ferli hjá Carbfix er lengra komið.“ Í fréttatilkynningunni segir að verulegur hluti fjárfestinganna sé fjármagnaður með framlegð af rekstri fyrirtækjanna og að eiginfjárhlutfall hafi aukist á fjórðungnum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK