COWI kaupir Mannvit

Mannvit á 60 ára afmæli í ár.
Mannvit á 60 ára afmæli í ár. Þórður Arnar Þórðarson

Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið COWI hefur náð samkomulagi við Mannvit um kaup á því síðarnefnda.

Sem hluti af samrunaferlinu mun Mannvit verða samþætt rekstrareining innan COWI Group og kemur til með að breyta nafni fyrirtækisins í COWI og starfa að fullu undir merkjum þess frá og með 1. janúar 2024. Fram að þeim tíma mun Mannvit starfa undir eigin nafni og vörumerki

Engin tilviljun

Í tilkynningu segir að það sé engin tilviljun að COWI fari nú inn á íslenskan markað. Vegna góðs aðgengis að endurnýjanlegum orkugjöfum hafi Ísland skapað sér stöðu sem alþjóðleg miðstöð fyrir græn orkuverkefni. Ísland sé nú þegar í fararbroddi þegar kemur að því að fanga og geyma kolefni, sem sé mikilvægur þáttur í baráttunni við loftslagsvána. „Þar sem þessir þættir eru einnig grunnstoðir í okkar stefnu teljum við að nú sé tækifæri til þess að fara inn á íslenskan markað,“ segir Henrik Winther, framkvæmdastjóri COWI í Danmörku í tilkynningu frá félögunum. Winther mun leiða samþættingu Mannvits og COWI.

Örn Guðmundsson forstjóri Mannvits.
Örn Guðmundsson forstjóri Mannvits.

Þá segir að íslensk stjórnvöld hafi undanfarin ár aukið fjárfestingar sínar í uppbyggingu á innviðum og grænni orku. „Hvað varðar umfangsmikla og flókna innviði framtíðarinnar er aukin krafa gerð um mannauð með sérfræðiþekkingu og reynslu á sínu sviði. Sem hluti af COWI Group kemur Mannvit til með að vaxa enn frekar og verður betur í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar,“ segir í tilkynningunni. 

Henrik Winther, framkvæmdastjóri COWI í Danmörku.
Henrik Winther, framkvæmdastjóri COWI í Danmörku. Foreningen af Rådgivende Ingeniører / FRI

Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri Mannvits segir að COWI og Mannvit hafi á undanförnum árum átt í farsælu samstarfi og með því að ganga til liðs við fyrirtækið sé haldið áfram þeirri vegferð sem hófst árið 2008 með sameiningu þriggja íslenskra verkfræðistofa. „Samruninn mun skapa ný tækifæri með hagsmuni íslensks hugvits að leiðarljósi. Í samstarfsverkefnum höfum við náð að kynnast COWI og sjáum góð tækifæri til vaxtar. Það mikilvægasta er þó okkar sameiginlega sýn á að þróa framtíðarlausnir með sjálfærni að leiðarljósi,“ útskýrir Örn Guðmundsson, forstjóri Mannvits.

Eitt öflugasta ráðgjafarfyrirtækið

„Með kaupunum er lagður grunnur að einu öflugasta ráðgjafarfyrirtæki landsins sem mun gera okkur kleift að þjónusta okkar viðskiptavini enn betur og gera starfsumhverfið áhugaverðara og fjölbreyttara“, bætir Örn við.

Í tilkynningunni segir að COWI hafi verið stofnað árið 1930 og sé leiðandi fyrirtæki á Norðurlöndunum á sviði verkfræði, hönnunar og arkitektúrs.

Höfuðstöðvar þess eru í Danmörku en starfsemin teygir anga sín víða, m.a. um Evrópu og til Asíu. Starfsmannafjöldi COWI er um 7.500 en hjá Mannviti á Íslandi starfa um 280 einstaklingar. „Með samrunanum verður Mannvit hluti af COWI Group og verður lagður metnaður í að styrkja stoðir þess enn frekar sem ráðgjafarfyrirtæki á sviði sjálfbærrar þróunar. Kaup COWI á Mannvit ganga í gegn þann 31. maí og eru mikilvægur áfangi í stefnu félagsins um að efla markaðsstöðuna á Norðurlöndunum en bæði fyrirtækin eru leiðandi á sviði orku, iðnaðar og mannvirkja. Fjárfestingar í sjálfbærum orkuskiptum og grænum lausnum fara ört vaxandi og starfsfólk Mannvits býr yfir þekkingu til þess að ýta undir vöxt fyrirtækjanna á því sviði. Þar að auki hefur það mikla reynslu á sviði jarðvarma og vatnsafls en sú sérþekking er víða eftirsótt á alþjóðavettvangi.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK