Merki eru tekin að sjást um að háir stýrivextir Seðlabanka Íslands séu farnir að bíta bæði á fyrirtæki og einstaklinga. Útlit er fyrir að takturinn í hagkerfinu munu hægjast umtalsvert þegar lengra líður á árið.
Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, yfirhagfræðingur Íslandsbanka.
Þjóðhagsspá bankans fyrir árin 2023 til 2025 leit dagsins ljós í morgun. Þar er gert ráð fyrir því að stýrivextir fari hæst í 9,5% síðar á þessu ári, sem yrði 0,75% hækkun frá því sem nú er.
Jón Bjarki segir að kortavelta, sem endurspeglar einkaneyslu að stórum hluta, hafi vaxið mjög hratt í byrjun ársins en síðan þá hafi dregið jafnt og þétt úr vextinum. Sömuleiðis hafi ákveðin straumhvörf orðið á íbúðamarkaði. Fleiri íbúðir séu á sölu og meðalsölutími eigna hafi lengst mikið.
Eins segir hann að viðhorfskannanir bankans á meðal fyrirtækja og samtöl við stjórnendur gefi til kynna að hærra vaxtastig muni segja meira til sín á komandi ársfjórðungum en það hafi gert undanfarið þegar kemur að fjárfestingatakti og rekstarskilyrðum.
„Þó að það sé mikið í gangi í hagkerfinu núna gæti hægst nokkuð verulega á taktinum þegar lengra líður á árið. Við erum farin að sjá fyrstu merki um að þetta sé farið að hafa áhrif á fyrirtækjahliðinni,” greinir Jón Bjarki frá og nefnir að fyrirtæki glími við töluverða hækkun fjármagnskostnaðar og launa. Stjórnendur þeirra telji að þetta gæti dregið úr vilja til fjárfestinga.
„Það dregur þá úr þenslu jafnt og þétt og kemur vonandi betra jafnvægi á hlutina. Þetta er ástæðan fyrir því að við gerum ekki ráð fyrir mikilli vaxtahækkun til viðbótar,” segir hann.
Eru þá bjartari tímar framundan?
„Við erum vonandi komin yfir það versta í verðbólgunni. Þegar hún hjaðnar þá koma vextirnir á endanum niður þó að það gæti orðið svolítil töf á því,” svarar Jón Bjarki og telur að þegar nær dregur vetrinum verði komin skýr merki um að hagkerfið sé að kólna.
Spurður út í áhrif stýrivaxtahækkana á lán einstaklinga, sérstaklega þá sem eru með óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, segir Jón Bjarki að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnmálamenn þurfi að gera það sem hægt er til að þeir sem ekki hafa burði til að standa undir bæði ört hækkandi rekstarkostnaði heimilisins og háum vöxtum fái aukna aðstoð.
„Á meðan það er kannski frekari í lagi að þetta bíti af fullum þunga á heimili sem hafa meira borð fyrir báru og hafa kannski verið að auka verulega við neysluna síðustu fjórðungana og það sama gildir um fyrirtækin," bætir hann við.
„Það væri mjög skynsamlegt fyrir þessa aðila að teikna upp úrræði og ráðstafanir og vera viðbúnir með viðbrögð ef það kemur í ljós að þetta er að ágerast. Við erum ekki farin að sjá í tölunum að fjárhagsvandræði heimila og fyrirtækja séu að aukast mikið og rekstrarvandræði fyrirtækja líka en það getur gerst hratt," heldur hann áfram.
„Það er engin ástæða til að gera lítið úr þessari hættu og þörfinni á því fyrir stjórnvöld, fjármálafyrirtæki og ýmsa aðila á vinnumarkaði að vera með það á takteinum að geta fljótt gripið til einhverra úrræða sem létta þessum aðilum róðurinn sem eru að lenda í vandræðum.”