Bogi Nils: Fólk vill ferðast

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Árni Sæberg

Reynslan af heimsfaraldrinum var sú að fólk vill ferðast, hitta ættingja og vini og upplifa nýja hluti í stað þess að dvelja heima.

Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í viðtali við tímaritið Airline Weekly. Í tímaritinu er fjallað um afkomu fjölda flugfélaga og rætt nánar við Boga Nils. Þar er hann meðal annars spurður út í nýleg ummæli sem hann hafði látið falla um að há verðbólga gæti haft áhrif á eftirspurn eftir ferðalögum.  

Bogi Nils svarar því til að sagan sýni að aukin útgjöld heimila, til dæmis við kaup á matvörum og orku, hafi vissulega áhrif á neysluhegðun.

„Við höfum séð það í gegnu tíðina. Við gerum því ráð fyrir að verðbólgan hafi áhrif á eftirspurn, jafnvel þó svo að við höfum ekki enn séð það á bókunarstöðunni,“ segir Bogi Nils. Hann segir að félagið sé undir það búið en fyrr í viðtalinu kemur fram að bókunarstaða félagsins fyrir sumarið sé sterk.

Stærra leiðarkerfi en færri sæti

Í viðtalinu er rakið að þrátt fyrir að sumarið í ár sé það stærsta í sögu félagsins mælt í fjölda ferða og áfangastöðum, þá sé sætaframboðið minna en áður þar sem  Boeing 737 Max vélar myndi nú meginþorri véla félagsins í stað Boeing 757 véla.

Í viðtalinu er vikið að því að gera megi ráð fyrir því að framlegð Icelandair verði á bilinu 4-6% á þessu ári en fara þarf aftur til ársins 2016, sem var með betri rekstrarárum í sögu félagsins, til að finna viðlíka framlegð. Bogi Nils nefnir þó að þetta sé undir markmiðum félagsins, þar sem gert er ráð fyrir 8% framlegð til lengri tíma.

Í framhaldinu af því víkur Bogi Nils að árunum sem fylgdu í kjölfar góðs gengis félagsins 2015-2017 og samkeppnina við Wow air. Hann rifjar upp að Wow air hafi selt flugmiða á lágum verðum í þeim tilgangi að ná fram góðri sætanýtingu. Slíkt hafi verið ósjálfbært enda hafi rekstur félagsins endað í gjaldþroti.

Einingartekjur hafi aukist

Blaðamaður Airline Weekly spyr þó um samkeppnina við Play en Bogi Nils svarar því til að samkeppnisumhverfið á Norður-Atlantshafi sé öflug.

„Við erum að keppa við Play en það eru um 26 félög að fljúga til og frá Íslandi í sumar, og sum þeirra allan ársins hring. Líkt og áður er samkeppnin hér mjög mikil og við kunnum vel við það. Starfsemi Play gengur vel og við berum virðingu fyrir samkeppninni,“ segir Bogi Nils.

Spurður nánar um rekstur Icelandair í hörðu samkeppnisumhverfi og hvort að gera megi ráð fyrir aukinni framlegð segir Bogi Nils að félagið náð að auka tekjur sínar, sem sé nauðsynlegt þar sem félagið starfi á Íslandi.

„Við erum lítið flugfélag og munum ekki ná sömu stærðarhagkvæmni og EasyJet eða önnur félög sem við eigum í samkeppni við. Lífskjör eru góð á Íslandi og við greiðum há laun. Í þessu umhverfi, sem við þekkjum vel, er mikilvægt að auka einingartekjur og okkur hefur tekist það,“ segir Bogi Nils.

Möguleikar til austurs og vesturs

Í viðtalinu er einnig fjallað um nýlega pöntun Icelandair á 24 nýjum Airbus A321XLR vélum. Þar rekur Bogi Nils, líkt og hann hefur gert í íslenskum miðlum, aðdragandann að kaupunum. Hann segir að Boeing 737Max vélarnar hafi reynst félaginu vel, meðal annars með tilliti til eldsneytisnýtingar og drægni. Aftur á móti hafi legið fyrir að finna þyrfti vélar sem gætu leyst eldri Boeing 757 vélar félagsins af hólmi og niðurstaðan eftir tveggja ára vinnu með flugvélaframleiðendunum tveimur, Boeing og Airbus, hafi niðurstaðan verið sú að velja Airbus vélar.

Spurður nánar um hvaða möguleika félagið sé fyrir sér með Airbus vélarnar segir Bogi Nils Icelandair hafi um tíma flogið til San Fransisco á Boeing 767 breiðþotum en geti jafnframt flogið þangað á minni vélum (e. narrow-body).

„Við sjáum mörg tækifæri á minni vél sem nær til Vesturstrandar Bandaríkjanna, svo sem Los Angeles, San Fransisco, Houston og Phoenix,“ segir Bogi Nils og bendir jafnframt á að vélarnar nái til Dubai í austri þó engin ákvörðun hafi verið tekið um það ennþá.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK