366 þúsund flugu með Icelandair í maí

Tæp 94% voru í millilandaflugi.
Tæp 94% voru í millilandaflugi. Ljósmynd/Icelandair

Farþegar Icelandair voru um 366.0000 talsins í seinasta mánuði. Um er að ræða 16% hækkun frá maímánuði árið áður en þá voru um 316.000 farþegar sem flugu með flugfélaginu. Sætaframboð jókst einnig um 11% miðað við fyrra ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu. Þar segir að farþegar í millilandaflugi hafi verið um 343.000 og eru það 18% fleiri en í maí 2022, þegar 291 þúsund flugu með félaginu. Þar af voru 41% á leið til Íslands, 16% frá Íslandi en 42% voru tengifarþegar. Stundvísi í millilandaflugi var 75% sem er nokkuð undir væntingum og skýrist m.a. af óvenjuskörpum lægðum í maí, að því er segir í tilkynningunni. Sætanýting var 80,7% og jókst hún um 6,6 prósentustig á milli ára.

35% fleiri farþegar en í fyrra

Samtals hefur Icelandair flutt 1,33 milljónir farþega í millilandaflugi það sem af er ári, en á sama tíma í fyrra var fjöldinn 980 þúsund. Nemur aukningin 35% milli ára. 

Sætanýting í maí var 80,7% samanborið við 74,2% í sama mánuði í fyrra, en þegar horft er til fyrstu fimm mánaða ársins er sætanýting 79,8% samanborið við 71,5% í fyrra.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi í maí var um 23.000. Á sama tíma í fyrra voru þeir 26.000 talsins. Sætanýting í innanlandsflugum var 76,6% í mánuðinum og stundvísi var 85%. Framboð var hins vegar minna en í maí í fyrra og kemur fram í tilkynningunni að það skýrist meðal annars af því að aflýsa þurfti nokkrum fjölda flugferða vegna veðurs.

Fraktflutningar félagsins jukust einnig um 34% á milli ára, aðallega vegna aukningar í fraktflugi yfir Atlantshafið með tilkomu tveggja Boeing 767 breiðþota í fraktflota Icelandair. Seldir blokktímar í leiguflugi voru 1.349 eða 26% fleiri en í sama mánuði í fyrra.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK