Borgin sótti 3,7 milljarða

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reykjavíkurborg aflaði tæplega 3,7 milljarða króna í skuldabréfaútboði sem fram fór í gær, en niðurstaða útboðsins var tilkynnt í dag.

Um var að ræða útboð á tveimur verðtryggðum skuldabréfaflokkum, öðrum grænum, en sömu flokkar voru boðnir út í síðasta mánuði. Uppgjörsdagur viðskiptanna verður þriðjudaginn 13. júní.

Hærri krafa á RVK 32 1

Annars vegar var um að ræða verðtryggða skuldabréfaflokkinn RVK 32 1 sem ber fasta 2,5% verðtryggða vexti og greiðir jafnar greiðslur á sex mánaða fresti með lokagjalddaga 21. október 2032.

Heildartilboð í flokkinn námu 6,91 milljarði króna að nafnvirði og var ávöxtunarkrafa á bilinu 3,84%-4,04%. Borgin tók tilboðum samtals að nafnvirði 2,71 milljarðs króna á kröfunni 3,90%, sem er hærri krafa en í síðasta útboði þegar borgin tók tæplega 1,3 milljörðum að nafnvirði á kröfunni 3,61% í sama flokk.

Útistandandi fyrir útboð voru um 28,2 milljarðar króna að nafnvirði, að meðtöldum eigin bréfum borgarinnar vegna viðskiptavaktar sem námu 960 milljónum. Heildarstærð flokksins er nú tæplega 30,1 milljarður að nafnverði.

Lægri krafa á græna flokkinn

Hins vegar var um að ræða verðtryggðan grænan skuldabréfaflokk RVKG 48 1 sem ber fasta 2,385% verðtryggða vexti og greiðir jafnar greiðslur á sex mánaða fresti með lokagjalddaga 21. október 2048.

Heildartilboð í flokkinn námu 1,35 milljörðum króna að nafnvirði og var krafa á bilinu 3,33%-3,40%. Borgin tók tilboðum samtals að nafnvirði 950 milljóna króna á kröfunni 3,35%, sem er lægri krafa en í síðasta útboði þegar borgin tók tæplega 1,9 milljarði á kröfunni 3,5% í sama flokk.

Útistandandi fyrir útboð voru um 12,2 milljarðar króna að nafnvirði að meðtöldum eigin bréfum borgarinnar vegna viðskiptavaktar sem námu 800 milljónum króna. Heildarstærð flokksins er nú tæplega 13,2 milljarðar að nafnverði.

Lántaka ársins um 14 milljarðar

Heimild borgarsjóðs til lántöku á árinu 2023 er 21 milljarður króna samkvæmt fjármálaáætlun 2023. Samkvæmt tilkynningu borgarinnar nam heildarfjármögnun ársins, fyrir þetta útboð, tæplega 10,1 milljarði króna og því má gera ráð fyrir að lántaka ársins eftir útboð nemi tæplega 13,8 milljörðum króna.

Það sem af er ári hefur borgin tekið tilboðum í skuldabréfaútboðum upp á um 10,1 milljarð króna, þar af tæplega um 8,6 milljarða verðtryggt og tæplega 1,5 milljarða óverðtryggt. Borgin er auk þess með opna lánalínu hjá Íslandsbanka að fjárhæð 6 milljarðar króna. Ekki fengust upplýsingar frá borginni um hversu mikið hefur verið dregið á lánalínuna, en leiða má að því líkur að ádráttur nemi um 3,6 milljörðum króna miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um stöðu heildarfjármögnunar ársins fyrir útboðið.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK