Íslandsbanki birtir upplýsingar um starfslok bankastjóra

Íslandsbanki.
Íslandsbanki. mbl.is/Árni Sæberg

Samningur sem gerður var við Birnu Einarsdóttur, fv. bankastjóra Íslandsbanka, um starfslok er í fullu samræmi við ráðningarsamning hennar. Ráðningarsamningurinn kvað á um tólf mánaða uppsagnarfrest og er gjaldfærsla vegna launa og hlunninda 56,6 milljónir króna.

Þetta kemur fram á vef Íslandsbanka þar sem í dag voru birtar spurningar frá hluthöfum bankans í kjölfar sáttar sem bankinn gerði við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands – og svör við þeim. Spurningarnar hafa borist frá hluthöfum í aðdraganda hluthafafundar bankans sem fer fram í næstu viku.

Birna Einarsdóttir, fv. bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, fv. bankastjóri Íslandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðal þess sem spurt er um eru starfslok og starfslokasamningur fráfarandi bankastjóra. Í svari bankans er sem fyrr segir greint frá launagreiðslum. Auk þess kemur fram að greiðslurnar fari fram mánaðarlega yfir tólf mánaða tímabil í formi launagreiðslna. Þá kemur fram að fráfarandi bankastjóri viðhaldi réttindum varðandi orlof og lífeyrissjóðsgreiðslur á því tímabili. Önnur ákvæði séu jafnframt stöðluð og í samræmi við ráðningarsamning og viðeigandi kjarasamninga.

Nokkuð hefur verið kallað eftir því að birtar verði upplýsingar um starfslokasamning fráfarandi bankastjóra og eftir tilvikum annarra starfsmanna bankans sem hafa látið af störfum eftir að fyrrnefnd sátt var gerð. Í svörum bankans kemur fram að samningar við aðra starfsmenn um starfslok fari eftir ráðningarsamningi, kjarasamningi og lögum um fjármálafyrirtæki. Í tilviki framkvæmdastjóra hafi verið samið um tólf mánaða uppsagnarfrest.

Athygli vekur að starfslokasamningur Birnu er mun lægri en starfslokasamningur Höskuldar Ólafssonar, sem lét af störfum sem bankastóri Arion banka vorið 2019. Starfslokasamningur hans hljóðaði upp á um 150 milljónir króna.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK