Snúa 600 milljóna tapi í 1,7 milljarða hagnað

Íslensk fjárfesting ehf. er í eigu þeirra Þóris Kjartanssonar, sem …
Íslensk fjárfesting ehf. er í eigu þeirra Þóris Kjartanssonar, sem er einnig framkvæmdastjóri, og Arnars Þórissonar sem er stjórnarformaður. Félagið á meðal annars Kilroy og RR hótel, sem rekur m.a. Reykjavík Residence. Samsett mynd

Fjárfestingafélagið Íslensk fjárfesting ehf. skilaði 1,7 milljarða hagnaði á síðasta ári, en félagið er móðurfélag utan um ýmsa atvinnustarfsemi og fasteignaverkefni, meðal annars ferðaskrifstofuna Kilroy, heilbrigðisþjónustuna í Sóltúni, útivistarverslunina Útilíf, RR hótel og fasteignaverkefni á Kársnesi og á Orkureitnum.

Í tilkynningu félagsins vegna uppgjörsins kemur fram að mikill viðsnúningur hafi orðið á rekstrinum milli ára, en töluverðra áhrifa hafi enn gætt árið áður vegna faraldursins á ferðaþjónustufélög samstæðunnar.

33,4 milljarða velta

Í ársreikningi, sem birtur hefur verið á heimasíðu félagsins, kemur fram að samtals hafi rekstrartekjum samstæðunnar numið um 33,4 milljörðum á síðasta ári. Rekstrarhagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir nam 3,8 milljörðum.

Eigið fé félagsins hefur aukist milli ára og nemur nú 4,5 milljörðum króna. Heildareignir félagsins í árslok námu 8,6 milljörðum. Þó er tekið fram að eignir félagsins í Kilroy og RR hótel séu færðar á kostnaðarverði, en að stjórnendur telji raunverulegt markaðsvirði þeirra mun hærra.

Þannig er meðal annars tekið fram að Kilroy sé stærsta félag samstæðunnar, en það er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn og rekur ferðaskrifstofur á átta mörkuðum í norðanverðri Evrópu. Helstu vörumerki félagsins eru KILROY, Benns, Jysk Rejsebureau, Winberg Travel og ISIC. RR Hótel rekur fjögur vörumerki: Reykjavík Residence hótel, Port9 vínbar, Tower Suites Reykjavík og ODDSSON hótel.

Hagnaður eftir skatta nam sem fyrr segir 1,7 milljörðum, en árið áður hafði tap numið 627 milljónum.

Kilroy 78% af tekjum, en lítill hluti hagnaðar

Í ársskýrslu félagsins kemur fram að rekstrartekjur Kilroy og dótturfélaga þess séu 26 milljarðar á síðasta ári, eða sem nemur um 78% af heildartekjum samstæðunnar.

Hagnaður fyrir og eftir skatta er hins vegar mestur af fasteignum og þróun, en þar var hagnaður fyrir skatta 2,1 milljarður og eftir skatta 1,1 milljarður.

Til samanburðar var hagnaður ferðaþjónustuhlutans fyrir skatta 947 milljónir, en eftir skatta 98 milljónir. Í heilbrigðisþjónustunni er hagnaður eftir skatta 558 milljónir, en 68 milljóna tap varð af fjárfestingum sem flokkast undir útivist og hreyfingu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK