Reiðhjólaverzlunin Berlin flutti í dag í nýtt húsnæði við Háaleitisbraut 58-60. Af því tilefni var haldin opnunarhátíð þar sem gestum bauðst meðal annars að hjóla á gömlu þrekhjóli frá áttunda áratugnum.
Í tilkynningu kemur fram að alls 33 gestir hjóluðu samtals 13 km á fjórum klukkustundum og því líkur á að nýtt Íslandsmet á þrekhjóli hafi verið sett. Allir sem komu og tóku þátt í þrekhjólametinu fóru í pott og eiga möguleika á að vinna Ladies Classic vintage reiðhjól.
„Húsnæðið í gömlu bensínstöðinni á Háaleitisbrautinni var orðið of lítið fyrir okkur og þótt að sú staðsetning hafi verið skemmtileg þá erum við að fara stutt frá í enn betra og stærra húsnæði. Það hefur verið mjög mikið að gera hér hjá okkur enda er hjólamenning Íslendinga alltaf að eflast og aukast og sífellt fleiri að eignast reið- og rafmagnshjól til að nota sem samgöngumáta,“ er haft eftir Jóni Óla Ólafssyni, eiganda Berlinar.