Alltaf hörmulegt að heyra af uppsögnum

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.
Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir alltaf hörmulegt að heyra af uppsögnum og sérstaklega ef þær snúa að þeim sem eldri eru í viðkomandi fyrirtæki.

Fregnir bárust af því í gær að á annan tug starfsmanna Kviku banka hafi verið sagt upp störfum en stöðugildum innan Kviku fækkaði um 4%. Auk þess hefur bankinn ákveðið að ráða ekki í allar þær stöður sem hafa losnað innan samstæðunnar að undanförnu.

„Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) er núna að kanna hversu margir félagsmenn SSF var sagt upp og bjóða alla aðstoð stéttarfélagsins. Starfsmenn Kviku eru í fleiri en einu stéttarfélagi og einnig að hluta utan stéttafélaga,“ segir Friðbert í samtali við mbl.is.

„Vinna SSF snýr að því að vernda og aðstoða félagsmenn sína og bjóða aðstoð félagsins, meðal annars lögmann,“ bætir Friðbert við.

Á ekki von á frekari uppsögnum á næstu misserum

Spurður hvort hann eigi von á frekari uppsögnum í geiranum segir Friðbert;

„Það eru því miður alltaf einhverjar uppsagnir í fjármálageiranum. Þær eru sem betur fer fáar síðasta árið þó allt sé erfitt fyrir þá einstaklinga sem lenda í uppsögnum. Starfsmönnum viðskiptabanka og sparisjóða hefur fækkað um 50% frá 2009 til 2023.

Það er líka breyting á störfum því um það bil 800 af 2.400 starfsmönnum viðskiptabankanna eru núna starfsmenn í upplýsingatækni eins og tölvunarfræðingar, verkfræðingar, stærðfræðingar, starfsmenn áhættustýringar og fleiri.

Eftirsóttir starfsmenn á öllum sviðum viðskipta eins og góðir viðskiptafræðingar, hagfræðingar, lögfræðingar og allir þeir sem þjónustu viðskiptavini allan sólarhringinn. Ég á ekki von á frekari uppsögnum í fjármálageiranum á næstu misserum,“ segir Friðbert.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK