Segir upp sem framkvæmdastjóri Icelandair Cargo

Gunnar Már Sigurfinnsson hefur sagt starfi sínu lausu.
Gunnar Már Sigurfinnsson hefur sagt starfi sínu lausu. mbl.is

Gunnar Már Sigurfinnsson hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri Icelandair Cargo og mun hann sömuleiðis stíga til hliðar úr framkvæmdastjórn Icealandair Group.

Uppsögnin tekur gildi samstundis og mun Einar Már Guðmundsson, forstöðumaður hjá tæknisviði Icelandair, tímabundið taka við starfinu sem og sætinu í framkvæmdastjórn.

Gunnar Már mun halda áfram að starfa með félaginu á næstu mánuðum og styðja eftirmann sinn eftir því sem þörf er á til að tryggja óslitna starfsemi á þessu mikilvæga sviði innan félagsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Icelandair Group.

Formlegt ráðningarferli mun nú fara af stað í því skyni að ráða til starfa nýjan framkvæmdastjóra félagsins. 

„Gunnar Már hefur verið mikilvægur liðsmaður innan Icelandair síðustu áratugi þar sem hann hefur gegnt ýmsum mikilvægum stöðum innan félagsins. Hann hefur verið framkvæmdastjóri hjá Icelandair síðan 2005, meðal annars sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs í samtals yfir 5 ár. Hann hefur svo farsællega leitt starfsemi Icelandair Cargo síðastliðin 15 ár þar sem hann gegndi mikilvægu hlutverki þegar Covid-19 faraldurinn gekk yfir. Þegar Icelandair gekk í gegnum þetta krefjandi tímabil átti hann stóran þátt í að grípa þau tækifæri sem gáfust á fraktmarkaðnum til að tryggja  mikilvægar tekjur þegar Icelandair fór í gegnum fordæmalausa erfiðleika. Fyrir hönd Icelandair teymisins vil ég þakka Gunnari Má fyrir ómetanlegt starf hjá félaginu í gegnum árin og hlakka til að vinna áfram með honum í þeim mikilvægu verkefnum sem eru framundan hjá félaginu,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group

„Ég er gríðarlega stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að vinna fyrir Icelandair Group að fjölmörgum verkefnum alla mína starfsævi. Ferillinn sem hófst í Eyjum árið 1986 hefur spannað allt sviðið sem þetta frábæra félag býður upp á. Það hefur verið skemmtileg vegferð frá hlaðinu alla leið í framkvæmdastjórn. Ég hef notið þess að vinna með frábæru fólki bæði hér á landi og á starfstöðvum félagsins erlendis þar sem við höfum ávallt unnið saman að einu markmiði í blíðu og stríðu. Icelandair hefur mikil tækifæri til frekari vaxtar og býr yfir frábærum mannauði sem mun tryggja góðan árangur til lengri tíma. Ég óska öllum í Icelandair fjölskyldunni velfarnaðar í þeirra störfum og mun að sjálfsögðu verða áfram til staðar til að liðsinna við þau mikilvægu verkefni sem eru framundan innan félagsins,“ er haft eftir Gunnari Má Sigurfinnssyni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK