Borgin fjármagnar sig á verri kjörum en áður buðust

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjavíkurborg lauk í gær fjármögnun upp á rúmlega fjóra milljarða með útboði á tveimur skuldabréfaflokkum, RVK 32 og RVKN 35. Sá fyrrnefndi er verðtryggður og sá síðarnefndi er óverðtryggður flokkur. Útboðinu hafði verið seinkað um tvær vikur frá upphaflegri áætlun.

Í heildina bárust tilboð að nafnvirði 4.300 milljónir króna í flokkana. Heildartilboð í RVK 32 voru samtals 2.100 milljónir króna að nafnvirði á bilinu 4,59%-4,75%. Heildartilboð í RVKN 35 voru samtals 2.200 milljónir króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 9,64%-9,80%.
Athygli vekur að sömu óverðtryggðu bréf, RVKN 35 voru einnig boðin út í síðasta útboði borgarinnar sem fram fór um miðjan ágúst, en þar ákvað borgin að hafna öllum þeim tilboðum sem buðust þrátt fyrir rúmlega eitt prósent lægri kröfu.

Heildartilboð í útboðinu í ágúst námu þá samtals 1.050 milljónum króna að nafnvirði á rúmlega 8,5% ávöxtunarkröfu en í útboðinu sem fram fór í gær var hinsvegar ákveðið að taka tilboðum að nafnvirði 2.040 milljónum króna á ávöxtunarkröfunni 9,78%.

Í verðtryggða flokknum sem boðin var út í gær, RVK 32, tók borgin tilboðum að samtals 1.840 milljónum króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 4,68% en til samanburðar stendur krafan á verðtryggðum ríkisskuldabréfum, miðað við svipaðan lánstím (7 til 10 ára) í rétt undir þremur prósentum. Þessi sami flokkur var einnig boðin út í júní síðastliðin en þá ákvað reykjavíkurborg að taka tilboðum að samtals nafnvirði 2.710 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,9%.

Þess má einnig geta að í ágúst síðastliðnum tilkynnti Reykjavíkurborg að borgin hafi dregið sex milljarða lánalínu hjá Íslandsbanka til fulls.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka