Reykjavíkurborg lauk í gær fjármögnun upp á rúmlega fjóra milljarða með útboði á tveimur skuldabréfaflokkum, RVK 32 og RVKN 35. Sá fyrrnefndi er verðtryggður og sá síðarnefndi er óverðtryggður flokkur. Útboðinu hafði verið seinkað um tvær vikur frá upphaflegri áætlun.
Í heildina bárust tilboð að nafnvirði 4.300 milljónir króna í flokkana. Heildartilboð í RVK 32 voru samtals 2.100 milljónir króna að nafnvirði á bilinu 4,59%-4,75%. Heildartilboð í RVKN 35 voru samtals 2.200 milljónir króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 9,64%-9,80%.
Athygli vekur að sömu óverðtryggðu bréf, RVKN 35 voru einnig boðin út í síðasta útboði borgarinnar sem fram fór um miðjan ágúst, en þar ákvað borgin að hafna öllum þeim tilboðum sem buðust þrátt fyrir rúmlega eitt prósent lægri kröfu.
Heildartilboð í útboðinu í ágúst námu þá samtals 1.050 milljónum króna að nafnvirði á rúmlega 8,5% ávöxtunarkröfu en í útboðinu sem fram fór í gær var hinsvegar ákveðið að taka tilboðum að nafnvirði 2.040 milljónum króna á ávöxtunarkröfunni 9,78%.
Í verðtryggða flokknum sem boðin var út í gær, RVK 32, tók borgin tilboðum að samtals 1.840 milljónum króna að nafnvirði á ávöxtunarkröfunni 4,68% en til samanburðar stendur krafan á verðtryggðum ríkisskuldabréfum, miðað við svipaðan lánstím (7 til 10 ára) í rétt undir þremur prósentum. Þessi sami flokkur var einnig boðin út í júní síðastliðin en þá ákvað reykjavíkurborg að taka tilboðum að samtals nafnvirði 2.710 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 3,9%.
Þess má einnig geta að í ágúst síðastliðnum tilkynnti Reykjavíkurborg að borgin hafi dregið sex milljarða lánalínu hjá Íslandsbanka til fulls.