Skel fjárfestingafélag hf. hefur undirritað samning vegna kaupa á 55 íbúðum við Stefnisvog 2 og kauprétt á 35 íbúðum við Stefnisvog 12. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Kauphöllinni barst eftir lokun markaða.
Þar segir að samhliða undirritun kaupsamnings hafi verið gert samkomulag um kauprétt Skeljar að 35 íbúðum, samtals 3.816 fm, við Stefnisvog 12, 104 Reykjavík í eigu Stefnisvogs ehf.
Verð samkvæmt kauprétti er sagt rúmlega 3.2 milljarðar. „Nýti Skel kaupréttinn er gert ráð fyrir því að íbúðirnar við Stefnisvog 12 verði afhentar fyrir árslok 2024.“
Fram kemur að Skel hyggist leiegja íbúðirnar út.
„Hluti kaupverðs verður greiddur með afhendingu hlutafjár og hluthafalána í Reir þróun ehf. á bókfærðu verði. Bókfært virði hlutfjár og fjárhæð hluthafalána Skeljar í Reir þróun þann 30.6.2023 nam samtals kr. 1.753.000.000. Komi til nýtingar kaupréttar verður Skel búið að afhenda alla hluti félagsins í Reir þróun. Að öðru leyti verður kaupverðið fjármagnað með bankaláni og reiðufé,“ segir í tilkynningu.
„Skel hefur reynslu og þekkingu á fasteignamarkaði, en 17% eigna félagsins eru í fasteignum eða félögum sem reka og þróa fasteignir,“ er haft eftir forstjóranum Ásgeiri Helga Reykfjörð Gylfasyni í tilkynningu.
„Skel telur að gerjun sé fram undan á fasteignamarkaði, m.a. vegna breytinga hjá stórum leigufélögum. Framboð hefur ekki svarað eftirspurn á undanförnum árum og eftirspurn vex ár frá ári. Íbúðirnar við Stefnisvog 2 verða settar í langtímaleigu.“