Samstarfslína 66°Norður og danska vörumerkisins GANNI var tilnefnd til dönsku Elle Awards-verðlaunanna sem samstarf ársins. Verðlaunahátíðin var haldin í Kaupmannahöfn á föstudagskvöld.
Um er að ræða þeirra þriðju samstarfslínu sem kom út í vor sem hluti af SS23-línu merkjanna, að því er fram kemur í tilkynningu.
Línan byggir á fyrra samstarfi og er samflétta af fyrirhafnarlitlum Kaupmannahafnarstíl, sem einkennir GANNI, og íslenskri arfleifð og þekkingu 66°Norður á útvistarfatnaði fyrir hvers kyns aðstæður.
Litaval á vörunum er innblásið af íslenskri náttúru, en Ditte Reffstrup, listrænn stjórnandi GANNI, segir Ísland vera einn fallegasta stað jarðar.
Samstarfslínan er framleidd úr tæknilegum afgangsefnum úr verksmiðjum 66°Norður og endurunnum efnum eins og nælon og pólýester. Merkin hafa nú tilkynnt sína fjórðu samstarfslínu sem kemur út 18. október í takmörkuðu upplagi, segir í tilkynningunni.
Helgi Óskarsson og Bjarney Harðardóttir, eigendur 66°Norður, voru viðstödd hátíðina og lýstu mikilli gleði með tilnefninguna og áframhaldandi samstarf við GANNI.