Sigurður Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ilva ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í dag.
Ilva er á meðal stærstu húsgagnaverslana landsins, en Sigurður kemur til fyrirtækisins frá EY á Íslandi þar sem hann starfaði sem sérfræðingur í endurskoðun ásamt því að sinna starfi framkvæmdastjóra iCert vottunarstofu.
Áður starfaði Sigurður sem framkvæmdastóri Basko sem átti og rak meðal annars verslanir 10-11. Sigurður hefur lokið meistaraprófi í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík, MBA-prófi frá Háskóla Íslands og prófi í verðbréfamiðlun.
„Ég er virkilega spenntur fyrir því að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og vexti félagsins,“ er haft eftir Sigurði í tilkynningunni.
„Félagið vinnur nú að uppbyggingu á nýju 3.000 m2 vöruhúsi við hlið verslunar sinnar í Kauptúni og mun nýtt vöruhús tryggja viðskiptavinum Ilva enn betri þjónustu og opna enn frekar á þann möguleika að opna fleiri verslanir.“