Aðeins ein kona gegnir stöðu æðsta stjórnanda í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi og er það sama hlutfall og fyrir tveimur árum, samkvæmt nýrri skýrslu félags Kvenna í orkumálum (KÍO).
Skýrslan snýr að áhrifa- og ákvörðunarvald kvenna í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi. Skýrslan er gefin er út annað hvert ár í samstarfi við EY og kom fyrst út árið 2017.
Í tilkynningu frá KÍO segir að þrátt fyrir að margar jákvæðar breytingar innan iðnaðarins í gegnum árin, sýni niðurstöður skýrslunnar kyrrstöðu eða jafnvel afturför hvað varðar kynjajafnvægi í helstu áhrifastöðum atvinnugreinarinnar.
Hlutfall kvenna og karla í stjórnum fyrirtækjanna er áfram nánast jafnt, en hlutfall kvenkyns stjórnarformanna lækkar um 25% frá árinu 2020 og eru nú þriðjungur þeirra. Ákvörðunarvald og ábyrgð kvenna innan atvinnugreinarinnar telst samanlagt hafa farið úr 36 prósentustigum niður í 32 á tveimur árum.
Hildur Harðardóttir, formaður KÍO, segir það vissulega vonbrigði að tölurnar hafi breyst til hins verra á milli ára, þrátt fyrir að tækifæri hafi verið til að jafna hlut kynjanna í æðstu stöðum innan iðnaðarins.
„Góðu fréttirnar eru þó þær að við sjáum örla á breytingum í nánustu framtíð í helstu áhrifastöðum innan fyrirtækjanna, því á aldursbilinu 30-44 ára eru tvöfalt fleiri kvenkyns en karlkyns framkvæmdastjórar,“ segir Hildur en hún telur það veita vonir um að konur færist til enn frekari áhrifa með tímanum.