Guðmundur vill láta af störfum

Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónuss.
Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónuss. Ljósmynd/Guðmundur Marteinsson

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá Högum frá og með næstu áramótum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Haga, þar sem segir einnig að búið sé að ganga frá samkomulagi um starfslok hans frá og með næstu áramótum.

Hefur Björgvin Víkingsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og innkaupastjóri Bónus, verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra og tekur við um næstu áramót.  

„Guðmundur Marteinsson á að baki afar farsælan feril hjá Bónus yfir tímabil sem spannar meira en þrjá áratugi.  Hann hefur gegnt nánast öllum störfum í Bónus, lengst af sem framkvæmdastjóri, eða frá árinu 1998.  Á þeim tíma hefur Bónus fest sig kyrfilega í sessi meðal landsmanna sem stærsta og öflugasta matvöruverslun landsins.

Það hefur verið bæði lærdómsríkt og ánægjulegt að fá að starfa með Guðmundi undanfarin ár, en velgengni Bónus hefur ekki síst byggt á staðfestu hans við að tryggja íslenskum heimilum ávallt hagkvæmustu matvörukörfu landsins, sem hefur verið markmið félagsins frá stofnun.  Guðmundur skilur við Bónus sem leiðandi fyrirtæki í verslun á Íslandi, þar sem hagkvæmni í rekstri og hagur neytenda eru ávallt sett í fyrsta sætið,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga í tilkynningu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK