Heiða Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri sölu- og þjónustu hjá Orkusölunni. Hún hefur gegnt stöðu markaðsstjóra fyrirtækisins síðaðstliðin fimm ár en einnig hefur hún gegnt stöðu sviðsstjóra einstaklingssviðs og hefur setið í framkvæmdastjórn fyrirtækisins síðustu tvö ár.
Samhliða þessu mun Halla Marinósdóttir hefja störf sem stjórnandi á sviði árangurs og umbóta hjá fyrirtækinu.
Fram kemur í tilkynningu frá félaginu, að Heiða muni leiða vinnu Orkusölunnar við sölu og þjónustu til núverandi og nýrra viðskiptavina ásamt því að leiða markaðsmál fyrirtækisins. Auk þess mun Heiða stýra verkefnum á sviði orkuskipta. Heiða situr áfram í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Halla mun leiða vinnu Orkusölunnar á sviði sjálfbærni, umbóta og gæðamála. Halla mun styðja forstjóra og framkvæmdastjóra félagsins í daglegum verkefnum auk þess að sjá um málefni á sviði mannauðs og lögfræði. Hún mun sitja í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Halla hefur gegnt stöðu öryggis, umhverfis og gæðastjóra fyrirtækisins undanfarin 3 ár.
Um er að ræða nýjar stöður innan Orkusölunnar en fyrirtækið hefur ráðist í skipulagsbreytingar í kjölfar stefnumótunarvinnu.
Orkusalan rekur sex vatnsaflsvirkjanir á Íslandi, þar á meðal Lagarfossvirkjun, Skeiðsfossvirkjun og Rjúkandavirkjun. Félagið selur raforku til heimila, fyrirtækja og stofnana um allt land á samkeppnismarkaði. Orkusalan er dótturfélag Rarik, sem er í eigu Íslenska ríkisins.
Í framkvæmdastjórn Orkusölunnar eru nú þau Andri Teitsson, Halla Marinósdóttir, Heiða Halldórsdóttir og Þengill Ásgrímsson. Magnús Kristjánsson er forstjóri Orkusölunnar.